Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 26. júlí 2017 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Raggi: Það kostar að eiga gott A-landslið
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður stýrði áður kvennalandsliðinu
Sigurður stýrði áður kvennalandsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Ragnar Eyjólfsson skrifaði á dögunum pistil á Facebook-síðu sína þar sem hann talar um íslenska kvennalandsliðið.

Sigurður Ragnar er fyrrum landsliðsþjálfari, en hann ákvað að greina frá sínu áliti á Evrópumótinu, sem er nú í Hollandi, og framgangi íslenska kvennalandsliðsins.

Ísland fer ekki upp úr riðli sínum á EM eftir töp gegn Frakklandi og Sviss í tveimur fyrstu leikjunum.

Sigurður segir að þrátt fyrir niðurstöðuna á mótinu, þá sé hægt að vera stoltur af mörgu hjá liðinu.

„Ísland er með mjög baráttuglatt lið og við getum verið stolt af vilja leikmanna, baráttugleði, umgjörð liðsins og áhuga stuðningsmanna í þessu móti. Enginn getur sagt að viljinn og effortið hafi ekki verið til staðar. Allir gerðu sitt besta," skrifar Sigurður.

„KSÍ og núverandi þjálfarateymi hafa náð að byggja vel ofan á umgjörðina undanfarin ár."

Hann segir að það vanti gæði sóknarlega í liðið.

„Það vantar gæði sóknarlega í íslenska landsliðið. 1 mark í 5 síðustu landsleikjum segir ákveðna sögu. 33% ball possession móti Frakklandi. Í hvert skipti sem Ísland var með boltann í þeim leik voru bara 65% líkur á að sendingin rataði til samherja."

Freyr Alexandersson, núverandi landsliðsþjálfari kvenna, sagði á blaðamannafundi að hann hefði áhuga á því að þróa U-23 ára landslið kvenna. Sigurður er sammála að þörf sé fyrir það.

Sjá einnig:
Freysa finnst hann standa stundum einn í storminum

„Árið 2006 var U23 ára landsliðið lagt niður. Mín ár sem landsliðsþjálfari 2007-2013 þurfti ég því alltaf að henda leikmönnum í djúpu laugina líkt og Freyr hefur gert í þessari lokakeppni. Glódís spilaði t.d. sinn þriðja A-landsleik 17 ára í byrjunarliði gegn Bandaríkjunum besta liði í heimi. Ekkert milliskref frá U19."

„Sumar geta það eins og Sara Björk, Dagný og fleiri. Mun fleiri þurfa lengri tíma og milliskref."

„En þetta kostar peninga og til þess þarf að vera pólitískur vilji með hvernig er best að ráðstafa fjármagni KSÍ. Viljum við eiga A-landslið kvenna sem er í topp 15-20 í heiminum? Hvað viljum við eyða mörgum milljónum í það?"

„Árið 2006 átti Ísland 3 atvinnumenn í kvennafótbolta. Mig minnir að þær hafi verið 15 árið 2013. Þeim hefur farið fækkandi aftur síðan. Ef okkar bestu leikmenn kjósa að spila á Íslandi þá þarf að taka það inn í framtíðarplön KSÍ um hvernig er best að efla landsliðin okkar."

„Einhverjar 3 æfingahelgar á ári fyrir A-landslið kvenna eins og raunin var orðin gerir ekki neitt fyrir liðið. Af hverju getur liðið ekki æft miklu meira saman? Kínverska kvennalandsliðið er saman í 168 daga á þessu ári. Samt er ekki stórmót hjá þeim á þessu ári. Ég er ekki að segja að það þurfi að vera á Íslandi en það má vera millivegur."

„Það kostar að eiga gott A-landslið."

„Við þurfum leikmenn með betri fótboltalega getu"

Sigurður segir að til þess að ná í fremstu röð þurfi leikmenn með betri fótboltalega getu. Leikmenn sem geti sent boltann.

„Það þarf að efla þjálfaramenntun í yngstu flokkum kvenna og efla tækniþáttinn miklu meira."

„Við erum eftir á í sendingagetu, móttöku, 1vs1 sóknarlega, uppspilsleiðum o.fl. Við erum með gott hugarfar, baráttu, liðsheild og líkamlegan styrk. Með því að spila góðan varnarleik getum við náð einstaka fínum úrslitum og það hentar okkur vel að berjast og beita skyndisóknum," segir Sigurður.

En við munum aldrei ná í allra fremstu röð nema við getum sent bolta betur. Við þurfum leikmenn með betri fótboltalega getu. Það byrjar í grasrótinni á æfingum hjá 5. 6. og 7. flokki kvenna og er langtímaplan. U23 landslið mun hjálpa. Iðkendum þarf líka að fjölga."

Sigurður er í dag þjálfari kvennaliðs Jiangsu Suning í Kína. Þar er hann að þjálfa ásamt Daða Rafnssyni, en þeir urðu á dögunum bikarmeistarar þar í landi í kvennaflokki og eru að gera ljómandi góða hluti.
Athugasemdir
banner
banner