Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 26. júlí 2017 12:00
Magnús Már Einarsson
Þrenna Tryggva: Valur minnir á FH í fyrra
Mynd: Fótbolti.net
Valsarar eru á toppnum.
Valsarar eru á toppnum.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Grindvíkingar hafa fengið tvo skelli í röð.
Grindvíkingar hafa fengið tvo skelli í röð.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net, skoraði margar þrennur á ferlinum og í sumar er hann með þrennuna eftir hverja umferð í Pepsi-deildinni. Þar tekur Tryggvi fyrir þrjú málefni sem brenna á honum.

Hér má sjá það sem vakti athygli Tryggva í tólftu umferðinni sem lauk í gær.

Valsarar líta vel út
Valsmenn eru búnir að auka forystu sína á toppnum úr þremur stigum í sex. Þeir eru svolítið að vinna leiki eins og FH í fyrra, með einu marki. Þeir eru að landa þessu og virka öruggir. Mörkin eru að koma úr öllum áttum og þau dreifast vel á leikmennina. Auðvitað vill maður alltaf hafa einn góðan markaskorara og það er aldrei að vita nema Patrick Pedersen hafi verið að byrja sitt flug í gær. Vörnin og markvarslan lítur vel út. Markið sem Valur fékk á sig í gær var vissulega klaufalegt en að öðru leyti lítur þetta vel út. Þetta er allt að smella og minnir svolítið á FH í fyrra.

Ekki hægt að afskrifa FH og Stjörnuna
Manni sýnist FH og Stjarnan vera bæði að vakna til lífsins. Þetta eru tvö lið sem er ekki hægt að afskrifa. Þó að forskotið sé mikið hjá Valsmönnum þá getur það verið jafn fljótt að fara og það var að koma. Þessi lið eiga eftir að mætast innbyrðis sín á milli og ég sé að það er að kvikna líf aftur bæði hjá FH og Stjörnunni. Ég setti þessi lið í fyrsta og annað sætið fyrir mót og ég ætla ekki að afskrifa þau.

Grindavík getur ennþá barist um Evrópusæti
Grindavík er með 0-9 í markatölu í síðustu tveimur leikjum. Það er kannski ósanngjarnt að kalla þetta hrun því að það sem þeir hafa gert í sumar hefur komið öllum á óvart. Grindvíkingar eru ekki vanir toppbaráttu og pressu. Þeir hafa gert vel en núna er kannski getan heilt yfir í liðinu að koma í ljós. Við sáum Víking Ólafsvík byrja vel í fyrra og vera í fallbaráttunni í lokin. Við þekkjum líka söguna með Þróttarana í den þar sem þeir voru efstir eftir fyrri umferðina í tíu liða deild en féllu. Ég sé Grindavík hins vegar ekki falla. ÍBV og ÍA þurfa að hafa miklu meiri áhyggjur af því. Grindavík gæti bitið í skjaldarrendur og barist um sæti í Evrópukeppninni. Það er bónus fyrir þá og ofar væntingum fyrir mót. Þeir hafa kannski sest niður og endurskipulagt markmiðið eftir góða byrjun og ég held að þeir geti barist um Evrópusæti. Allir geta unnið alla í deildinni og þetta er óútreiknanlegt Íslandsmót sem er gaman fyrir okkur sem eru ekkert alltof tengdir liðunum.

Sjá einnig:
Eldri þrennur Tryggva
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner