Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fös 28. júlí 2017 17:30
Arnar Daði Arnarsson
Hin hliðin - Hrannar Björn Bergmann (KA)
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú er komið að því að Hrannar Björn leikmaður KA í Pepsi deild karla, sýni á sér hina hliðina.

Hrannar Björn er uppalinn á Húsavík en hefur undanfarin ár leikið með KA í 1. deildinni og nú í Pepsi-deildinni.

Fullt nafn: Hrannar Björn Bergmann Steingrímsson

Gælunafn sem þú þolir ekki: Pit Bull. Nokkrir vinir mínir hafa mjög gaman að því, ekki ég.

Aldur: 25 ára.

Hjúskaparstaða: Aleinn

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki: Með Völsungi gegn Hvöt á Blönduósi árið 2008. Kom þá inn á sem varamaður fyrir goðsögnina Sreten Djurovic.

Uppáhalds drykkur: Kókómjólk er ofarlega á lista. Annars er ískalt kók með pizzu eða grilluðu lamba rib eye svindl.

Uppáhalds matsölustaður: Lemon hér á Akureyri. Eldofninn fyrir sunnan.

Hvernig bíl áttu: Hef átt svartan Toyota Avensis síðan ég fékk bílpróf árið 2009. Hann er reyndar bremsulaus í dag svo ég er með eldgamla græna Corollu í láni frá góðvini mínum honum Ingvari Birni. Hún er mjög ljót.

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Friends, Desperate Housewives, O.C., Breaking Bad svo eitthvað sé nefnt. Er líka nýbyrjaður á Game of Thrones. Þeir eru góðir.

Uppáhalds tónlistarmaður: Eminem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi. Annars er erfitt að horfa framhjá Ed Sheeran.

Uppáhalds samskiptamiðill: Skoða Twitter mjög mikið, er sem betur fer farinn að tjá mig minna þar. Svo hef ég gaman að Snapchat.

Skemmtilegasti “vinur" þinn á Snapchat: Viðar Skjóldal, betur þekktur sem Enski Boltinn. Hann er bara ein uppáhalds manneskjan mín í lífinu. Ég elska hann. Svo verð ég að nefna Bjadda Bre. Mæli með að menn addi honum: bjarkio

Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Hlaup, mars, jarðaber og lúxusdýfu.

Hvernig hljómar síðasta sms sem þú fékkst: Audkennisnumerid thitt er: 64765

Hvaða liði myndir þú aldrei spila með: Liverpool. Ég hata þá.

Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Barnabarn Möggu gítarkennara á Húsavík, Aron Elís Þrándarson.

Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt: Þór Akureyri.

Sætasti sigurinn: vs. Grindavík í Inkasso 2016. Vorum 1-0 undir í hálfleik en skoruðum tvö mörk á 4 mínutum í seinni hálfleik og lyftum svo Inkasso titlinum fyrir framan sturlaða áhorfendur á Akureyrarvelli.

Mestu vonbrigðin: Ég veit eiginlega ekki afhverju ég er að segja frá þessu en ég var hluti af Völsungs liðinu sem fékk 2 stig í 1. deildinni árið 2013.

Uppáhalds lið í enska: Manchester United.

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: Aron Bjarki Jósepsson.

Fyrsta verk ef þú yrðir formaður KSÍ: Auðvelt svar. Aldrei að spila á þriðjudegi eða miðvikudegi eftir Verslunarmannahelgi. Aldrei.

Efnilegasti knattspyrnumaður/kona landsins: Atli Barkarson, Völsungi.

Fallegasti knattspyrnumaðurinn á Íslandi: Hallgrímur Mar

Fallegasta knattspyrnukonan á Íslandi: Hrafnhildur Agnarsdóttir

Hver er mesti höstlerinn í liðinu: Ívar Örn Árnason er mesti höstler á Íslandi þannig að hann á þetta skuldlaust.

Uppáhalds staður á Íslandi: Húsavík og Herjólfsdalur.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik: Við í Völsungi spiluðum við KA í úrslitaleik Soccerade mótsins á undirbúningstímabilinu 2010. Það var allt í járnum þegar Hallgrímur Mar kom KA mönnum yfir þegar mjög lítið var eftir af leiknum og ákvað í heimsku sinni að fagna markinu með því að rífa sig úr að ofan gegn sínum gömlu félögum. Í uppbótartíma jafnaði hins vegar Gunnar "Goðsögn" Jósteinsson í 1-1 með sleggju af 30 metrunum og kom okkur þannig í vítakeppni sem við enduðum að sjálfsögðu á að vinna. Grímsi hefur ekki rifið sig úr að ofan síðan þá.

Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú vaknar: Beint í símann.

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum: Fylgist smá með Dominos deildinni, þá sérstaklega úrslitakeppninni.

Í hvernig fótboltaskóm spilar þú: Adidas X

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: Stærðfræði og að mæta almennt. Held ég hafi sofið yfir mig á hverjum einasta degi í 10. bekk.

Uppáhalds Eurovision lag frá upphafi: The War Is Not Over.

Vandræðalegasta augnablik: Ég fékk einu rautt spjald sem fyrirliði í 16-0 tapi á móti Víkingi Reykjavík í næstefstu deild. Það var samt ekki það vandræðalegasta við leikinn þar sem bróðir minn fékk rautt spjald á sömu mínútu fyrir kjaft þegar hann mótmælti rauða spjaldinu mínu. Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei jafna mig á, enda á ég það ekki skilið. Þetta var viðbjóður.

Hvaða þrjá leikmenn tækir þú með þér á eyðieyju: Hallgrím bróðir minn, Ásgeir Sigurgeirs og Elfar Árna. Svo mætti Guðmann Þóris kíkja í heimsókn í nokkra daga.

Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Ég var markahæsti leikmaður Völsungs tímabilin 2010 og 2012. Á þremur og hálfu tímabili með KA hef ég hins vegar ekki skorað mark í KSÍ leik.

Athugasemdir
banner
banner
banner