sun 13. ágúst 2017 11:30
Þórarinn Jónas Ásgeirsson
Lampard og Gerrard láta Benjamin Mendy heyra það
Benjamin Mendy var ekki að spila í gær en var samt gagnrýndur
Benjamin Mendy var ekki að spila í gær en var samt gagnrýndur
Mynd: Manchester City
Manchester City vann góðan 2-0 útisigur á Brighton í gær. Sergio Agurero kom City yfir í leiknum en það var svo Lewis Dunk sem varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og gulltryggði sigur City.

Benjamin Mendy, sem kom til City frá Monaco í sumar, hafði mjög gaman að sjálfsmarki Dunk og ákvað að skella sér á Twitter eftir markið. Mendy tísti „Bullet header" og setti í kjölfarið emoji kalla eins og að hann væri að grenja úr hlátri.

Eins og gefur að skilja voru menn ekki alls kosta sáttir við þennan gjörning Mendy enda frekar óíþróttamannsleg hegðun að gera grín að því þegar leikmenn gera mistök. Ensku úrvalsdeildargoðsagnirnar Frank Lampard og Steven Gerrard voru á meðal þeirra sem fordæmdu þessa hegðun.

„Til að vera hreinskilinn þá vil ég ekki sjá svona, það er enginn tilgangur í því. Það mun koma augnablik á þessu tímabili þegar Mendy gerir mistök og þá er hann galopinn fyrir allri svona gagnrýni," sagði Steven Gerrard í setti BT Sport í umræðu eftir leik.

Lampard bætti við:„Steve hefur hárrétt fyrir sér. Hann er að fara spila á þessu tímabili og gæti lent í því að illa farið sé með hann, einhver hefði þá áhuga á að tísta um hann."

Gerrard hélt svo áfram og sagði að Vincent Kompany, fyrirliði City, ætti að eiga nokkur orð við Mendy.

„Ég myndi eiga nokkur orð við hann ef ég væri fyrirliði liðsins. Ég myndi segja honum að fara varlega því að þú ert að opna þig fyrir gagnrýni. Mér finnst þetta óvirðing við kollega þinn og mér finnst þetta ekki vera nauðsynlegt."

Mendy sendi út afsökunarbeiðni stuttu eftir tístið og má sjá það ásamt fyrra tístinu hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner