Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 16. ágúst 2017 11:03
Elvar Geir Magnússon
Wenger reiðubúinn að taka þá áhættu að missa Alexis frítt
Alexis Sanchez í stúkunni á leiknum um Samfélagsskjöldinn þar sem Arsenal vann Chelsea.
Alexis Sanchez í stúkunni á leiknum um Samfélagsskjöldinn þar sem Arsenal vann Chelsea.
Mynd: Getty Images
Á einstaklingsæfingu hjá Arsenal á dögunum.
Á einstaklingsæfingu hjá Arsenal á dögunum.
Mynd: Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segist tilbúinn að taka það fjárhagslega högg að missa Alexis Sanchez frítt næsta sumar.

Sanchez færist ekkert nær því að skrifa undir nýjan samning en hann er á lokaári samningsins.

Sílemaðurinn gæti því farið frítt eftir eitt ár nema Wenger sé tilbúinn að selja hann núna áður en félagaskiptaglugganum verður lokað.

Manchester City hefur áhuga á sóknarleikmanninum en hann hefur einnig verið orðaður við Paris St-Germain í sumar.

Arsenal vonast enn til þess að Sanchez muni skrifa undir nýjan samning en þegar hann var spurður að því í morgun hvort einhverjar nýjar fréttir væru af málinu sagði hann að staðan væri óbreytt.

„Staðan núna er sú að hann er leikmaður sem fer í lokaár samnings síns og undirbýr sig fyrir tímabilið. Það hefur ekki verið nein framþróun í viðræðum," segir Wenger.

Hann var svo spurður að því hvort hann væri til í að taka þá áhættu að missa Sanchez án þess að fá pening fyrir hann.

„Það er möguleg afleiðing af því sem ég var að segja. Svo ég verð því að svara játandi þó það sé ekki óskastaða. En við verðum að velja á milli þess sem við viljum gera á vellinum og fjárhagslegu hliðinni. Í þessu tilfelli set ég í forgang hversu mikið not við höfum af honum í liðinu."

„Þetta er alls ekki óskastaðan hvað varðar fjárhagsmálin og þetta krefst ákveðinnar fórnar. En þetta þýðir heldur ekki að leikmenn sem eru á lokaári samnings síns muni ekki skrifa undir framlengingu. Það er enn sá möguleiki og við munum vinna í honum."

Alex Oxlade-Chamberlain og Mesut Özil eru einnig á lokaári samnings síns. Chelsea vill fá Oxlade-Chamberlain en Wenger segir að líkt og Sanchez muni hann vera hjá Arsenal út tímabilið sama hvort hann skrifi undir nýjan samning eða ekki.

„Ég tala við leikmennina reglulega og þeir vita vel hver mín afstaða sem knattspyrnustjóri er," segir Wenger sem segist vilja halda Oxlade-Chamberlain og að hann hafi miklar mætur á honum sem leikmanni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner