mið 16. ágúst 2017 21:00
Magnús Már Einarsson
Skrifar frá Liverpool
Everton eina liðið sem Gylfi hafði áhuga á - Reyndu við hann í fyrra
Icelandair
Gylfi er mættur til Everton.
Gylfi er mættur til Everton.
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson segir að Everton hafi heillað langmest af þeim félögum sem sýndu honum áhuga eftir góða frammistöðu með Swansea á síðasta tímabili. Lið innan og utan England sýndu Gylfa áhuga í sumar og á endanum samdi hann við Everton.

Everton reyndi einnig að krækja í Gylfa síðastliðið sumar en hann ákvað að halda þá tryggð við Swansea. Everton hafði áfram augastað á Gylfa og í dag varð hann dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

„Það voru nokkur lið sem höfðu mikinn áhuga og einhver sem gerðu tilboð," sagði Gylfi við Fótbolta.net í kvöld aðspurður hvort að önnur félög hafi sýnt áhuga í sumar.

„Í mínum huga var Everton eina liðið sem ég hafði áhuga á. Það var séns að þetta myndi gerast í fyrrasumar en þá ákvað ég að vera eitt ár í viðbót hjá Swansea. Sem betur fer komu þeir aftur í sumar og við náðum að klára þetta núna."

Var ákvörðun Gylfa að fara ekki í fyrra eða stoppaði þetta á milli félaganna þá?

„Ég held að það hafi bara verið bæði. Ég hafði áhuga á að vera áfram og fannst það skynsamlegri ákvörðun að vera áfram í eitt ár í viðbót hjá Swansea. Ég veit ekki hversu langt það hefði farið ef ég hefði haft meiri áhuga þá á að fara."

Gylfi er spenntur fyrir því að ganga í raðir Everton og leika með liðinu næstu árin. Hvað heillar hann mest við félagið?

„Það er náttúrulega þjálfarinn og liðið er búið að styrkja sig gríðarlega á síðustu mánuðum og síðasta ári síðan Koeman tók við. Framtíðarsýnin hjá félaginu er mikil og það er mikil uppbygging hjá liðinu. Yfir heildina litið er þetta flott félag, frábærir áhorfendur og mjög sterkt lið núna. Bæði reynslumiklir leikmenn og ungir og góðir. Framtíðin er vonandi mjög björt hjá félaginu."

Hér að neðan má sjá viðtalið við Gylfa í heild sinni.
Risa viðtal við Gylfa um félagaskiptin
Athugasemdir
banner
banner