Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 18. ágúst 2017 10:00
Mist Rúnarsdóttir
Valdís Ósk: Hlökkum til að spila í 1. deild
Lið Aftureldingar/Fram hefur átt frábært sumar og unnið sér sæti í 1. deild að ári
Lið Aftureldingar/Fram hefur átt frábært sumar og unnið sér sæti í 1. deild að ári
Mynd: Kristinn Traustason
Fyrirliðinn Valdís Ósk Sigurðardóttir segir okkur frá liðinu sínu
Fyrirliðinn Valdís Ósk Sigurðardóttir segir okkur frá liðinu sínu
Mynd: Ingibjörg Þórðardóttir
Afturelding/Fram hefur tryggt sér sæti í 1. deild þó liðið eigi enn þrjá leiki eftir
Afturelding/Fram hefur tryggt sér sæti í 1. deild þó liðið eigi enn þrjá leiki eftir
Mynd: Kristinn Traustason
Leikmenn eru ekki vissir um hárlit Júlíusar þjálfara þar sem hann er alltaf með húfu
Leikmenn eru ekki vissir um hárlit Júlíusar þjálfara þar sem hann er alltaf með húfu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við höldum áfram að skyggnast inn í starfið hjá liðunum í 1. og 2. deild kvenna í gegnum liðinn "Hvað er að frétta". Í dag er komið að því að kíkja á Aftureldingu/Fram sem hefur þegar tryggt sér sæti í 1. deild að ári eftir frábært sumar í 2. deildinni.

Það er fyrirliðinn Valdís Ósk Sigurðardóttir sem segir okkur aðeins frá ævintýrum Fram og Aftureldingar sem sameinuðust í haust og tókst að vinna sig upp í 1. deild á sínu fyrsta samstarfsári.

Afturelding/Fram:
Erkifjendur: Fjölnir
Heimavöllur: Varmá
Fyrirliði: Valdís Ósk Sigurðardóttir
Þjálfari: Júlíus Ármann Júlíusson

Hvernig er stemningin hjá Aftureldingu/Fram?
Stemningin er mjög góð. Þetta er alveg nýtt lið frá því í fyrra en við erum búnar að kynnast mjög vel á seinustu mánuðum og höfum náð að skapa virkilega góðan anda í hópnum.

Hversu mikilvægt er fyrir liðið að vinna sér sæti í 1. deild áð ári?
Mjög mikilvægt. Það var alltaf fyrsta markmiðið okkar og við sýndum það snemma á tímabilinu að okkur væri alvara. Afturelding/Fram er lið sem á klárlega heima í 1. deild og jafnvel Pepsi.

Hvaða lið telur þú að fylgi ykkur upp í 1. deild?
Þetta er á milli Völsungs og Fjölnis held ég. Völsungur eru búnar að koma á óvart í sumar svo ef þær klára sína leiki þá eiga þær skilið að koma með okkur upp. Hins vegar mjög skemmtilegt ef það verður smá barátta um hitt sætið.

Hvernig kom það til að liðin tvö voru sameinuð og hvernig hefur samstarfið gengið, innan og utan vallar?
Félögin eru í samstarfi í yngri flokkunum svo það er eðlilegt að vinna einnig saman í meistaraflokknum. Umgjörðin er flott, við erum með metnaðarfulla stjórn og við leikmennirnir erum sáttar. Hjá okkur erum við bara eitt lið svo samstarfið þar gengur mjög vel innan sem utan vallar. Við erum einnig með mjög flottan þjálfara sem hefur verið mjög mikilvægur í þessu ferli og sögunni sem við erum að skapa núna.

Hvernig er liðið samsett?
Reynsla, mömmur, verslópíur og kjúllar. Það eru nokkrar úr bæði Aftureldingu og Fram, nokkrar alveg nýjar og síðan fengum við einn erlendan leikmann í glugganum sem hefur komið vel inn. Liðstjórinn okkar er einnig leikmaður í óléttuorlofi sem hefur staðið sig þvílíkt vel í sumar á hliðarlíðunni svo liðið er því virkilega vel samsett.

Hverjir eru helstu styrkleikar liðsins?
Liðsheild og breidd, sem er að skila baráttustigum. Völsungsleikurinn úti þar sem við skoruðum tvö mörk í uppbótartíma og jöfnuðum leikinn er mjög gott dæmi um hvað býr í liðinu. Við tökum líka mjög vel á móti ungu leikmönnunum okkar sem eru að blómstra og nýjum leikmönnum. Ég tel að góður mórall eigi stóran þátt í góðum árangri hjá okkur í sumar.

Hverju má búast við af 2. deildar meisturum Aftureldingar/Fram í lokaumferðum Íslandsmótsins?
Það breytist ekkert núna, við höldum bara áfram af sama krafti. Auðvitað er ákveðin pressa farin af okkur, en það er bara einn leikur í einu og við förum í alla leiki til að sigra.

Komdu með eina skemmtilega staðreynd um félagið sem fólk veit ekki um:
Það er veðmál í gangi um hvernig hárið á Júlla þjálfara sé á litinn, þar sem hann er alltaf með húfu. Hann hefur hins vegar misst tölu á öllum titlunum sem hann hefur unnið í gegnum árin svo það er sigurreynsla í brúnni.

Eitthvað að lokum: Hlökkum til að spila í 1. deild. Áfram Afturelding/Fram!
Athugasemdir
banner
banner