Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 21. ágúst 2017 18:34
Magnús Már Einarsson
Gulli Jóns hættur með ÍA (Staðfest)
Jón Þór stýrir liðinu út tímabilið
Gunnlaugur Jónsson á hliðarlínunni gegn ÍBV í gær.
Gunnlaugur Jónsson á hliðarlínunni gegn ÍBV í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson stýrir ÍA út tímabilið.
Jón Þór Hauksson stýrir ÍA út tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik ÍA og ÍBV í gær.
Úr leik ÍA og ÍBV í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnlaugur Jónsson er hættur sem þjálfari ÍA en þetta kemur fram í fréttatilkynningu á heimasíðu félagsins.

Jón Þór Hauksson, sem var aðstoðarþjálfari Gunnlaugs, mun stýra ÍA út tímabilið.

Gunnlaugur tók við ÍA haustið 2013 og kom liðinu ári síðar upp í Pepsi-deildina. Hann hefur áður þjálfað Selfoss, Val, KA og HK.

Eftir tap ÍA gegn ÍBV í gær eru skagamenn sex stigum frá öruggu sæti og staða liðsins mjög erfið á botni Pepsi-deildarinnar.

Yfirlýsing frá ÍA
Ágætu stuðningsmenn og aðrir velunnarar,

Gunnlaugur Jónsson hefur óskað eftir því við stjórn KFÍA að stíga til hliðar sem þjálfari meistaraflokks karla. Eftir leik félagsins gegn ÍBV í gærdag kom Gunnlaugur að máli við stjórnarmenn og reifaði þá hugmynd hvort rétt væri í ljósi stöðunnar að hann viki til hliðar.

Stjórn KFÍA hefur fallist á beiðni Gunnlaugs og falið Jóni Þór Haukssyni að taka við þjálfun liðsins út tímabilið. Stjórn KFÍA þakkar Gunnlaugi fyrir gott samstarf og góð störf í þágu félagsins síðustu árin. Sérstaklega þakkar stjórn Gunnlaugi fyrir þau stóru skref sem stigin hafa verið undir hans stjórn í uppbyggingu ungra leikmanna.

Árangur á yfirstandandi tímabili hjá meistaraflokki karla hefur ekki gengið eftir eins og markmiðið var fyrir tímabilið. Eftir ágætan árangur á undanförnum þremur keppnistímabilum hefur komið bakslag og róa strákarnir okkar nú lífróður fyrir sæti sínu í deild þeirra bestu. Á fjórum undanförnum tímabilum að þessu tímabili meðtöldu hefur félagið starfað mjög ákveðið eftir stefnu þar sem ungum iðkendum í Knattspyrnufélagi ÍA (KFÍA) eru gefin tækifæri til þess að sanna sig í meistaraflokki með tilheyrandi trausti frá þjálfurum. Hefur þessi stefna félagsins vakið eftirtekt og verið hrósað víða, t.a.m. af landsliðsþjálfara Íslands Heimi Hallgrímssyni. Þessi stefna er ekki áhættulaus en yngri leikmenn félagsins þurfa að njóta skjóls frá eldri og reyndari leikmönnum á meðan þeir afla sér reynslu og öðlast styrk í baráttu meðal þeirra bestu.

Frá haustmánuðum 2016 hefur hvert áfallið á fætur öðru dunið yfir í leikmannahópi félagsins þegar horft er til reynslumeiri leikmanna. Ármann Smári Björnsson sleit hásin undir lok síðasta tímabils og ákvað hann í framhaldinu að leggja skóna á hilluna. Í nóvembermánuði s.l. sleit Árni Snær Ólafsson krossbönd sem héldu honum frá leik þar til í ágúst á þessu ári. Darren Lough tilkynnti félaginu í desembermánuði s.l. að hann myndi ekki geta uppfyllt samning sinn við félagið vegna skuldbindinga heima fyrir. Þá tilkynnti Iain Williamson félaginu snemma á þessu ári að hann þyrfti að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla sem hann hefur verið að glíma við á undanförnum árum. Þessu til viðbótar kom í ljós á undirbúningstímabilinu að Guðmundur Böðvar Guðjónsson glímdi við álagsbrot á fæti auk þess sem Arnór Snær Guðmundsson hélt til Bandaríkjanna til náms í ágúst í fyrra og kom ekki til baka til liðs við félagið fyrr en í byrjun móts. Alls voru það því sex lykilleikmenn sem ljóst var að myndu ekki hefja Íslandsmótið með okkur í upphafi sumar.

Bæði stjórnarmenn og þjálfarar liðsins gerðu sér grein fyrir því að það yrði mjög erfitt verkefni að finna leikmenn í stað þeirra sex ofantalinna. Það var ekki bara af fjárhagslegum ástæðum heldur líka af þeim sökum að okkur Skagamönnum hefur ekki tekist vel upp á undanförnum árum að fá til liðs við okkur sterka íslenska leikmenn frekar en öðrum félögum á landsbyggðinni. Það er líka mikil áhætta falin í því að ráða erlenda leikmenn eins og dæmin sanna. Staða félagsins í deildinni ber þess merki að liðið er mjög ungt þrátt fyrir að spila skemmtilegan og ógnandi fótbolta í sumar.

Stjórn KFÍA gerir sér grein fyrir því að stuðningsmenn félagsins eru ekki sáttir með gang mála og við erum það ekki heldur. Stjórn félagsins ber höfuðábyrgð á því að hafa ekki tekist nægjanlega vel að leysa framangreindan leikmannavanda.. KFÍA er að takast ágætlega að byggja upp unga knattspyrnumenn og konur.

Leikmannahópur okkar í meistaraflokk er frábær hópur til framtíðar litið en sem dæmi í því samhengi er fjöldi leikja með yngri landsliðum Íslands á undanförnum árum. Auk þess hafa tveir leikmenn félagsins leikið með A-landsliði Íslands á undanförnum tveimur árum. Á þessu ári hafa tveir leikmenn KFÍA verið seldir til erlendra félaga, sem er einnig gott dæmi um það uppbyggingarstarf sem á sér stað innan félagsins. Það að leikmenn KFÍA fái tækifæri í hörðum heimi atvinnumennskunnar og þannig tækifæri til að reyna sig á meðal þeirra bestu er í fullkomnu samræmi við stefnu félagsins og markmið. Að mörgu leyti stefnir félagið því í rétta átt, þó svo að árangur ársins sé ekki á þeim nótum sem við Skagamenn gerum kröfur til, eitthvað sem stjórn félagsins gerir sér fullkomlega ljóst.

Það hefur reynst okkur Skagamönnum best í gegnum tíðina að standa saman og berjast sem einn maður þegar á móti blæs, mörg dæmi sanna það. Framtíð knattspyrnunnar er björt á Skaganum og við erum rosalega stolt af þessu frábæra félagi okkar. Við erum nær því í dag en við höfum verið um langt skeið að búa til lið byggt á heimamönnum sem getur barist á meðal þeirra bestu. Við verðum að gefa drengjunum okkar tíma til að þroskast enn frekar og styðja þá þó á móti blási. Á sama tíma þurfum við að standa okkur betur í því að ná í þær styrkingar utan frá sem nauðsynlegar eru á hverjum tíma. Að lokum vill stjórn KFÍA koma á framfæri sérstöku þakklæti til stuðningsmanna félagsins sem hafa heldur betur látið í sér heyra og þétt raðirnar á undanförnum vikum í mótbyrnum sem strákarnir okkar eru í núna. Kærar þakkir fyrir ykkar gríðalega mikilvæga framlag í baráttunni. Áfram ÍA !

Stjórn KFÍA
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner