banner
   þri 22. ágúst 2017 17:00
Magnús Már Einarsson
Jón Þór: Erfitt að sjá á eftir Gulla
Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson var í gær ráðinn þjálfari ÍA út tímabilið. Jón Þór hefur verið aðstoðarþjálfari ÍA en hann var ráðinn þjálfari eftir að Gunnlaugur Jónsson ákvað að hætta störfum.

„Það er erfitt að sjá á eftir Gulla. Hann er ekki bara náinn samstarfsfélagi heldur líka góður vinur. Hann hefur unnið mikið og gott starf sem verður seint fullþakkað. Þetta er ekki endirinn á okkar samstarfi sem við sáum fyrir okkur," sagði Jón Þór við Fótbolta.net í dag.

„Atburðir gærdagsins gerðust mjög hratt og óvænt. Ég hafði því lítinn tíma til að átta mig á hlutunum en hvað liðið varðar þá er ekkert erfitt að taka við. Ég hef mikla trú á þessum hópi og þessu verkefni."

ÍA tilkynnti nú síðdegis að Ármann Smári Björnsson verði aðstoðarþjálfari Jóns. Sigurður Jónsson og Þórður Guðjónsson koma einnig inn í þjálfarateymið. Reiknar Jón með að gera miklar breytingar á liðinu?

„Eins og ég segi þá hef ég mikla trú á hópnum en eins og alltaf þegar þjálfaraskipti verða þá fylgja einhverjar breytingar. Það koma mjög öflugir einstaklingar að liðinu og einnig munu nýir menn koma inn í teymið sem ég vænti mikils af. Það eru allt gríðarlega reyndir fótboltamenn og sterkir karakterar sem munu hafa mikil og góð áhrif á liðið."

ÍA er sex stigum frá öruggu sæti þegar sex umferðir eru eftir í Pepsi-deildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Breiðabliki í Kópavogi á sunnudag.

„Við þurfum fyrst og fremst að komast úr þessari erfiðu stöðu sem liðið er í, í dag. Það er langt síðan liðið vann leik síðast og við þurfum að komast úr því ástandi sem því fylgir og fáum tækifæri til þess á sunnudaginn. Það er mikilvægt að við einbeitum okkur fyrst og fremst að næsta leik," sagði Jón Þór að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner