Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mið 13. september 2017 12:40
Elvar Geir Magnússon
„Markmið allra að ná stöðugleika í nýrri deild"
Njarðvíkingar fagna sætinu í Inkasso-deildinni.
Njarðvíkingar fagna sætinu í Inkasso-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Rafn Markús Vilbergsson.
Rafn Markús Vilbergsson.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Inkasso-deildin bíður.
Inkasso-deildin bíður.
Mynd: Guðmundur Sigurðsson
Eftir sjö ára veru í 2. deild náði Njarðvík að tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni um síðustu helgi með því að vinna 3-2 útisigur gegn grönnum sínum í Víði í Garði.

Njarðvíkingum var spáð 4. sæti í 2. deild en hafa tryggt sér upp þegar enn eru tvær umferðir eftir.

„Við settum markið hátt strax í upphafi og stefndum upp, eins og mörg lið í deildinni. Það er frábært að vera komnir upp þegar tvær umferðir eru eftir og með 10 stiga forskot á liðið í þriðja sæti. Njarðvíkurliðið hefur verið í fallbaráttu síðustu ár þannig að þetta er mikil breyting fyrir alla sem koma að félaginu," segir Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkur.

Rafn Markús lék með Njarðvík 2005-2013 og aftur 2016 en þetta er hans fyrsta heila tímabil sem aðalþjálfari Njarðvíkur. Hann er skiljanlega stoltur af því að ná að koma liðinu upp á fyrsta ári.

„Jú auðvitað er frábært að koma liðinu strax upp á fyrsta ári. Ég er mjög stoltur að fá að leiða þetta flotta lið upp um deild. Í Njarðvík er flottur hópur þjálfara sem koma að starfi félagsins hvort sem það er í yngri flokkum eða í meistaraflokki. Með mér í meistaraflokknum eru Snorri Már Jónsson aðstoðarþjálfari, Sævar Júlíusson markmannsþjálfari, Gunnar Ástráðsson sjúkraþjálfari og einnig aðstoðaði Steindór Gunnarsson sundþjálfari okkur við æfingar i vetur. Allt miklir snillingar sem eiga stóran þátt í árangri sumarsins."

Eins og áður segir var markmið Njarðvíkinga frá upphafi að komast upp. Hver er lykillinn að því að liðið nær að stíga skrefið?

„Lögð var áhersla á að halda kjarna þeirra leikmanna sem spilað hafa með liðinu síðustu ár og bæta við sterkum leikmönnum. Það gekk upp og samheldin í þessum unga hópi er mikil. Á tímabilinu höfum við spilað mikið af leikjum, rétt tæplega 50 æfinga- og mótsleiki sem ég tel að hafi verið mjög gott fyrir liðið. Umgjörðin í kringum liðið er mun betri en áður, stjórnin er virk og dugleg að styðja við bakið á liðinu. Með góðu gengi hefur orðið mikil aukning frá fyrri árum á áhorfendafjölda á Njarðtaksvelli og jákvæður stuðningur hefur verið á pöllunum. Allt þetta hefur gert það að verkum að við náðum stóra markmiði sumarsins, að fara upp um deild," segir Rafn Markús.

„Deildin hefur verið mjög jöfn og í raun flókin, stutt er á milli liða sem eru í efri og neðri hluta deildarinnar og mikið um óvænt úrslit. Það hefur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með hversu mörg lið eru farin að senda beint frá sínum leikjum."

Nú þegar liðið er komið upp, er ekki hætta á að erfitt verði að gíra menn í lokaleikina?

„Auðvitað er það ákveðið spennufall að vera búnir að ná markmiðum þegar tvær umferðir eru eftir og sérstaklega eftir geggjaðar lokamínútur í Garðinum í síðustu umferð. En núna er markmiðið skýrt, vinna deildina en það er eitthvað sem Njarðvík hefur ekki gert síðan árið 1981. Við eigum tvo skemmtilega mótherja eftir, KV sem er í bullandi fallbaráttu og síðan Völsung á Húsavík, besta liðið í sumar á heimavelli," segir Rafn Markús.

Það hefur reynst mörgum liðum erfitt að stíga skrefið upp í 1. deildina. Hvernig er Njarðvík tilbúið í það?

„Það er ljóst að á síðustu árum hefur amk eitt þeirra tveggja liða sem hafa komið upp úr 2. deildinni fallið úr 1. deildinni strax árið á eftir. Fyrir okkur er mjög mikilvægt að koma vel undirbúnir til leiks á næsta ári og festa Njarðvíkurliðið í sessi í efri deild. Ég tel að við séum tilbúnir að stíga það skref. Þetta verður skemmtilegt og krefjandi verkefni sem gaman verður að takast á við. Eftir margra ára bið er liðið komið í Inkasso deildina og er það markmið allra sem koma að félaginu að ná stöðugleika þar."

Magni Grenivík getur á laugardaginn tryggt sér hitt Inkasso-sætið þegar liðið mætir Vestra.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner