Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 21. september 2017 11:00
Magnús Már Einarsson
Jóhannes Karl hættur með HK/Víking - Nýr þjálfari í Pepsi
Jóhannes Karl Sigursteinsson.
Jóhannes Karl Sigursteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Karl Sigursteinsson hefur ákveðið að hætta sem þjálfari HK/Víkings. Jóhannes Karl stýrði HK/Víkingi til sigurs í 1. deild kvenna í sumar en nú er ljóst að annar þjálfari verður við stjórnvölinn í Pepsi-deildinni næsta sumar.

Jóhannes Karl er þriggja barna faðir en sambýliskona hans er Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar. Þau eignuðust strákinn Ými fyrr á þessu ári.

„Þetta er fjölskyldutengt. Það er stærri fjölskylda núna og minni tími. Ég er í þannig 9-5 vinnu að það er alveg nóg. Það er ekki hægt að hafa börnin munaðarlaus. Við áttum barn síðasta vetur og það breytti myndinni," sagði Jóhannes Karl við Fótbolta.net í dag.

„Í 1. deildinni og Pepsi-deildinni er nánast gert ráð fyrir því að þetta sé fullt starf þó að það sé alls ekki raunin kvennamegin. Það þarf að vera einhver í þessu sem getur horft á leikina aftur, leikgreint og búið til myndbönd. Þetta er hellings vinna fyrir utan æfingarnar. Ég treysti mér ekki í þá vinnu. Ég ætla að taka pásu núna og sinna fjölskyldunni."

Jóhannes Karl hefur þjálfað HK/Víking undanfarin tvö ár en hann stígur sáttur frá borði.

„Ég gæti ekki verið sáttari. Liðið er á þannig stað að þetta er feykilega spennandi verkefni fyrir hvern þann sem tekur við þessu. Það er mikill efniviður í þessu liði," sagði Jóhanes Karl að lokum.
Athugasemdir
banner
banner