Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 25. september 2017 18:15
Magnús Már Einarsson
Bestur í 21. umferð: Erfitt að trúa því sem var að gerast
Anton Ari Einarsson (Valur)
Anton fagnar Íslandsmeistaratitlinum um síðustu helgi.
Anton fagnar Íslandsmeistaratitlinum um síðustu helgi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
„Svona í fljótu bragði man ég ekki eftir betri leik hjá mér í sumar," sagði Anton Ari Einarsson, markvörður Vals, við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 21. umferðar eftir frammistöðu sína gegn Stjörnunni í gær.

Valur fór með 2-1 sigur af hólmi í gær eftir að hafa tryggt Íslandsmeistaratitilinn gegn Fjölni um síðustu helgi. Hvernig gekk að gíra sig upp í leikinn í gær eftir að titillinn var í höfn?

„Það gekk bara vel. Við erum held ég bara með það marga keppnismenn í hópnum að það á ekki að skipta máli hvaða leik við erum að fara spila. Menn vilja alltaf vinna. Eins og Haukur (Páll Sigurðsson) og Guðjón (Pétur Lýðsson) fóru yfir í útvarpsþættinum núna um helgina þá er mönnum alls ekki sama þegar við spilum á æfingu. Menn vilja alltaf vinna sama hvort um er að ræða leik í Íslandsmóti, öðrum mótum, spil á æfingum eða skotkeppnir á æfingum."

Anton hefur fengið 17 mörk á sig í 21 leik í Pepsi-deildinni í sumar og hann er ánægður með sumarið.

„Já, ég er frekar ánægður með sumarið. Það er náttúrulega ekki annað hægt þegar við stöndum uppi sem Íslandsmeistarar. Ég er samt þannig gerður að ég er minn harðasti gagnrýnandi og mér finnst því vera nóg svigrúm til bætinga. Heilt yfir er ég þó sáttur."

Hinn 23 ára gamli Anton er uppalinn hjá Aftureldingu og hann steig sín fyrstu skref í meistaraflokki í Mosfellsbænum. Í byrjun árs 2014 fór Anton í markmannsskóla til Englands og eftir góða frammistöðu þar æfði hann með U21 árs liði Manchester City í nokkrar vikur. Þar var hann á sama æfingasvæði og stjörnurnar í aðalliði City.

„Þetta var mjög steikt og í rauninni var erfitt að trúa því sem var að gerast. Ekki mörgum mánuðum áður var ég að mæta Ægi og Dalvík/Reyni í 2. deild, með fullri virðingu fyrir þeim, en svo var ég allt í einu að borða morgunmat og hádegismat hjá Manchester City og á næsta borði sátu Aguero, Joe Hart, Kompany og fleiri góðir."

„Á meðan ég var þarna hjá City þá var liðið á ferð og flugi út um allan heim en liðið var meðal annars að spila gegn Barcelona í Meistaradeildinni og taka þátt í úrslitum enska deildabikarsins. Aguero var meiddur á þessum tíma þanngi að hann fór ekki með í ferðalögin. Maður sá hann því mikið á æfingasvæðinu. Ég vonaði lengi að hann myndi taka æfingu með U21 liðinu til að koma sér af stað meðan aðalliðið var í London eða eitthvað álíka en svo varð því miður ekki. Hann tók bara séræfingar með styrktarþjálfara og með Richard Wright, þáverandi þriðja markverði City. Hann er einn mesti toppmaður sem ég hef kynnst."

„Unglingaliðin hjá City voru hrikalega sterk á þessum tíma. Bæði efst í sínum deildum og ég held að U21 árs liðið hafi verið taplaust í 18 leikjum þarna í byrjun árs. Kannski ekki annað hægt þegar goðsögnin Patrick Vieira er í brúnni,"
sagði Anton léttur.

Eftir að hafa fengið smjörþefinn af atvinnumennskunni hjá Manchester City þá segir Anton að markmiðið sé að komast að í atvinnumennsku erlendis einn daginn.

„Markmiðið og draumurinn er að komast út í atvinnumennsku. Hvort það verði í vetur skiptir mig ekki öllu máli. Mér líður mjög vel í Val en ef að eitthvað spennandi býðst þá útiloka ég ekki að fara út," sagði Anton að lokum.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi-deild karla og kvenna fá Pizzu veislur frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Leikmaður 20. umferðar - Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík)
Leikmaður 19. umferðar - Shahab Zahedi Tabar (ÍBV)
Leikmaður 18. umferðar - Eiður Aron Sigurbjörnsson (Valur)
Leikmaður 17. umferðar - Elfar Árni Aðalsteinsson (KA)
Leikmaður 16. umferðar - Einar Karl Ingvarsson (Valur)
Leikmaður 15. umferðar - Geoffrey Castillion (Víkingur R.)
Leikmaður 14. umferðar - Steven Lennon (FH)
Leikmaður 13. umferðar - Andre Bjerregaard (KR)
Leikmaður 12. umferðar - Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
Leikmaður 11. umferðar - Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
Leikmaður 10. umferðar - Kenan Turudija (Víkingur Ó.)
Leikmaður 9. umferðar - Arnór Sveinn Aðalsteinsson (KR)
Leikmaður 8. umferðar - Haukur Páll Sigurðsson (Valur)
Leikmaður 7. umferðar - Sindri Snær Magnússon (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Emil Lyng (KA)
Leikmaður 5. umferðar - Arnar Már Guðjónsson (ÍA)
Leikmaður 4. umferðar - Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Aleksandar Trninic (KA)
Leikmaður 2. umferðar - Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan)
Leikmaður 1. umferðar - Steven Lennon (FH)
Athugasemdir
banner
banner