Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fim 28. september 2017 10:35
Elvar Geir Magnússon
Arnar Halls nýr þjálfari Aftureldingar - Magnús Már aðstoðarþjálfari
Arnar Hallsson og Ásbjörn formaður.
Arnar Hallsson og Ásbjörn formaður.
Mynd: Afturelding
Magnús hættir að spila og einbeitir sér að starfi aðstoðarþjálfara.
Magnús hættir að spila og einbeitir sér að starfi aðstoðarþjálfara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding hefur ráðið Arnar Hallsson sem þjálfara meistaraflokks karla til næstu tveggja ára. Arnar tekur við liðinu af Úlfi Arnari Jökulssyni sem stýrt hefur liðinu undanfarin þrjú ár.

Afturelding endaði í fjórða sæti 2. deildarinnar í sumar en liðið hefur verið í deildinni síðan 2010.

Arnar, sem á sínum leikmannsferli, lék með Víkingi R. og ÍR hefur undanfarin þrjú ár starfað sem þjálfari 4. og 3. flokks hjá HK.

Þar á undan starfaði Arnar sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Víkingi R. og þjálfaði þar meðal annars 2. flokk félagsins. Einnig var Arnar til aðstoðar Guðlaugi Baldurssyni við stjórnvölinn hjá meistaraflokki ÍR í tvö ár. Arnar er með UEFA-A þjálfaragráðu.

„Við í Aftureldingu erum virkilega spenntir fyrir því að fá Arnar til starfa. Við höfum tekið eftir því á undanförnum árum að lið hans hafa alltaf spilað virkilega skemmtilegan en jafnframt árangursríkan fótbolta. Hann virðist ná vel til ungra leikmanna en leikmannahópurinn okkar er einmitt að miklu leyti byggður upp af ungum heimamönnum. Við erum óhræddir við að gefa ungum og/eða óreyndari þjálfurum tækifæri til að sanna sig ef við teljum að þeir henti leikmannahópnum okkar og falli vel að gildum félagsins." segir Ásbjörn Jónsson, formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar í samtali við fotbolti.net.

„Arnar tekur við góðu búi frá Úlfi Arnari. Úlli hefur nú stýrt liðinu í þrjú ár og alltaf gefið ungum leikmönnum tækifæri til að taka ábyrgð og blómstra. Við viljum þakka honum fyrir einstaklega vel unnin störf á undanförnum árum."

Magnús Már Einarsson, sem hefur verið einn af lykilleikmönnum liðsins undanfarin ár, mun verða aðstoðarþjálfari hjá Arnari.

„Það er auðvitað missir í Magga sem leikmanni en við erum einstaklega ánægðir með að hann hefur mikið hungur til að starfa fyrir félagið og gefa af sér til ungra leikmanna. Það er ekki síður mikilvægt að hann þekkir alla innviði félagsins en mestu máli skiptir að Maggi hefur viðamikla þekkingu á 2. deildinni og knattspyrnumönnum á Íslandi. Hann kemur með ýmislegt að borðinu sem mun hjálpa okkur að ná þeim árangri sem að er stefnt," segir Ásbjörn.
Athugasemdir
banner
banner