banner
   fös 13. október 2017 09:53
Magnús Már Einarsson
Heimir hefði íhugað að hætta ef Lars hefði haldið áfram
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson hefði íhugað að hætta sem landsliðsþjálfari Íslands eftir EM ef KSÍ hefði framlengt samning sinn við Lars Lagerback. Þetta kemur fram í viðtali við Heimi í DV og á 433.is.

Eftir undankeppni HM 2014 var Heimir gerður að aðalþjálfara ásamt Lars eftir að hafa áður verið aðstoðarþjálfari. Samningur Heimis við KSÍ var á þá leið að hann og Lars skyldu þjálfa liðið saman fram yfir lokakeppni EM en að þaðan í frá myndi Heimir stjórna liðinu einn.

Í lok árs 2015 bárust hins vegar fréttir um að KSÍ hefði farið þess á leit við Lars að hann héldi áfram fram til ársins 2018. Það kom Heimi óþægilega á óvart.

„Ég hefði líklega ekki farið aftur með Lars fyrir undankeppni EM árið 2014 nema vegna þessa ákvæðis í samningnum mínum um að ég tæki svo einn við liðinu eftir að mótinu lyki. Að KSÍ skyldi hefja viðræður við Lars um framhald fram yfir EM var því í raun brot á samningi mínum af hálfu KSÍ, því ef þeir semdu við Lars væri minn samningur orðinn marklaus,“ sagði Heimir í viðtalinu við DV og 433.is.

Telur Heimir að Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, hafi farið á bak við sig með þessu? „Já mér fannst það, auðvitað átti formaðurinn að tala við mig fyrst og bjóða mér breytingu á mínum samningi eða eitthvað annað þess háttar. Ég er ekkert svo viss um að ég hefði verið ánægður í starfi ef ég hefði verið aftur í sömu sporum, ég er bara það metnaðarfullur. Ég var aðstoðarþjálfari í tvö ár, var meðþjálfari í tvö ár og það var markmiðið að vera svo einn þjálfari þar á eftir. Ég veit ekki hvort ég hefði haldið áfram ef KSÍ hefði samið við Lars um að vera lengur. Ekki það að ég hafi ekki viljað vinna með Lars, síður en svo, heldur var það einfaldlega metnaður minn að taka við liðinu einn og mér fannst ég vera tilbúinn til þess.“

Heimir hefur gert frábæra hluti síðan hann tók einn við liðinu en hann stýrði Íslandi á HM í fyrsta skipti í vikunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner