fös 13. október 2017 11:00
Magnús Már Einarsson
Dalglish vill að Klopp fái þolinmæði eins og Ferguson
Kenny Dalglish.
Kenny Dalglish.
Mynd: Getty Images
Kenny Dalglish, fyrrum leikmaður og stjóri Liverpool, vill að Jurgen Klopp fái þolinmæði til að byggja upp lið á Anfield. Dalglish segir að Klopp þurfi að fá svipaða þolinmæði og Sir Alex Ferguson fékk í byrjun hjá Manchester United.

„Ég tel að við séum með fullkominn mann fyrir þetta fótboltafélag. Í leikjunum sem ég hef séð á þessu tímabili þá hefur liðið klárlega gert nægilega mikið til að vinna," sagði Dalglish við Liverpool Echo fyrir stórleik Liverpool og Manchester United á morgun.

„Ef að leikmennirnir hafa trú á sjálfum sér þá munu þeir snúa genginu við. Það er ekki hægt að finna betri dag til að byrja á því en á laugardaginn."

Dalglish segir að Ferguson hafi fengið tíma til að byggja upp öflugt lið hjá Manchester United.

„Þeir gáfu honum tíma og ég er viss um að þeir eru ánægðir með að hafa gert það. Þeir þurftu aldrei að sjá eftir því."

„Ég held að þetta sé samfélagið í dag. Ef þú vilt vita eitthvað þá ferðu í símann og skrifar spurninguna. Innan við 30 sekúndum síðar færðu svarið."

„Fólk er að venjast því að fá strax svar eða lausn en þetta virkar ekki þannig í fótbolta. Það þarf smá þolinmæði ef þú vilt ná árangri."

„Ef við kaupum nægilega vel og eyðum rétt þá getur þú búið til samkeppnishæft lið. Þú þarft ekki að gera það í einum félagaskiptaglugga. Það gæti tekið fjóra eða fimm en það skiptir ekki máli. Það tók Fergie langan tíma að gera þetta hjá Man Utd svo ég skil ekki litla þolinmæði á öðrum stöðum."

Athugasemdir
banner
banner
banner