Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 13. október 2017 13:45
Elvar Geir Magnússon
Hafa áhyggjur af stöðnun hjá KR
Frá KR-vellinum.
Frá KR-vellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
„Aðstaðan er döpur og það hefur engin framþróun orðið," sögðu Ólafur Páll Johnson og Páll Kristjánsson, stuðningsmenn KR, í samtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X977 í gær.

Þeir hafa áhyggjur af stöðu KR og segja andleysi ríkja innan félagsins. Aðstaðan hafi litlum framförum tekið, áhorfendum fækkar og félagið missir yngri flokka þjálfara í önnur félög.

Ólafur Páll hefur skrifað pistla þar sem hann lýsir yfir áhyggjum af stöðu KR og talar meðal annars um að KR sé mjög lokaður klúbbur.

„Ég held að það séu allir sammála um að það sé ákveðin stöðnun í klúbbnum. Það eru KR-ingar um allt sem hafa áhyggjur. Fólkið í hverfinu veit voðalega lítið og upplýsingagjöf skortir," segir Ólafur.

Fáir ungir leikmenn hafa fengið alvöru tækifæri hjá KR og nefnir Páll sem dæmi að Guðmundur Andri Tryggvason, sem verður 18 ára í næsta mánuði, hafi of lítið spilað.

„Hann spilaði alltof fáa leiki í sumar. Ef við tökum sem dæmi að í fyrra fengum við danskan leikmann, Denis Fazlagic, sem fékk mínútur í hverjum einasta leik. Denis skildi ekkert eftir sig. Guðmundur var fastur á bekknum. Ef Guðmundur hefði fengið hans mínútur og fleiri í sumar væri hann kannski 40-50 milljónum verðmætari söluvara," segir Páll.

„Við erum langt á eftir FH í dag því miður. Ef við skoðum byrjunarliðið í dag þá erum við með sex Dani og elsta byrjunarlið Evrópu. Ég hef ákveðinn skilning á því að erlendir leikmenn séu sóttir en þetta er spurning um ákveðið jafnvægi. Sex Danir eru of mikið."

Þeir Ólafur og Páll eru þó sammála um að jákvætt skref hafi verið tekið í þjálfararáðningum fyrir næsta tímabil Rúnar Kristinsson er mættur aftur og er með Bjarna Guðjónsson og Kristján Finnbogason sér til aðstoðar.

„Þetta er mjög jákvætt skref sem lyftir andanum vestur frá. Þessi ráðning á þessum þremur mönnum er gott skref en það þarf ákveðna hugarfarsbreytingu," segir Páll en viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner