fös 20. október 2017 22:39
Brynjar Ingi Erluson
Hewson ræðir um dvölina á Íslandi - Ætlar að vera áfram
Sam Hewson í leik með Grindavík
Sam Hewson í leik með Grindavík
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sam í leik með Manchester United
Sam í leik með Manchester United
Mynd: Getty Images
Sam Hewson, leikmaður Grindavíkur í Pepsi-deild karla, ræðir við Planet Football um dvölina á Íslandi, tíma sinn hjá Manchester United og margt fleira.

Hewson ólst upp hjá enska stórliðinu Manchester United en hann var bæði fyrirliði U17 ára liðsins sem og varaliðsins. Hann fékk smjörþefinn af aðalliðinu er hann var á bekknum gegn Roma í Meistaradeild Evrópu í desember árið 2007.

Þrátt fyrir góðan árangur með bæði unglinga- og varaliðinu þá var ljóst að hann myndi ekki fá tækifæri með United og því fór hann á lán til Hereford og Bury áður en hann samdi svo við Altrincham.

„Það var alltaf smá áfall að fara frá United eftir að hafa verið í yfir tíu ár hjá félaginu. Þetta var það eina sem ég þekkti í raun var að spila með United," sagði Hewson við Planet Football.

„Ég var að glíma við meiðsli og þegar ég yfirgaf United þá var það erfiðara en að segja það að finna nýtt félag. Félagi minn bauð mér vinnu í verksmiðju og ég ákvað að taka því og láta reyna á það."

„Mér fannst ekkert að því að prufa það en það ýtti mér enn frekar í því að koma mér aftur af stað í boltanum. Ég skrifaði undir hjá Altrincham því ég þurfti leiktíma og þurfti að koma mér í formi eftir öll þessi meiðsli. Ég naut þess að vera þar,"
sagði hann ennfremur.

Hewson lék með mönnum á borð við Danny Welbeck og Tom Cleverley hjá United en draumur hans var auðvitað að spila fyrir enska stórliðið.

„Það er draumur hvers knattspyrnumanns að spila fyrir stórt félag eins og Manchester United. Það var draumurinn minn."

„Það voru því alger forréttindi að leiða liðið í úrslitaleik í FA bikar unglinga því það er mjög virt keppni. Þegar ég komst svo að því að ég hefði verið valinn í leikmannahópinn hjá aðalliðinu gegn Roma þá var ég í skýjunum því það var alltaf markmiðið og ég vissi að reynslan að ferðast með aðalliðinu myndi reynast mér vel."


Þorvaldur Örlygsson fékk Hewson til Fram árið 2011 og átti hann eftir að gera góða hluti hér heima. Hann vann meðal annars bikarinn með Fram og átti síðar eftir að vinna deildina tvisvar með FH.

„Það var umboðsmaður sem hringdi í mig og spurði hvort ég vildi fara til Íslands og spila þar. Ég þurfi eitthvað nýtt og spennandi, svo ég hugsaði mig ekki tvisvar um í rauninni. Ég myndi bara setja þetta í reynslubankann ef það myndi ekki ganga upp."

„Ég er búinn að vera hér í sex ár núna og hef komið mér vel fyrir á Íslandi. Mín helstu afrek er að vinna bikarinn með Fram og svo deildina tvisvar í röð með FH og næstum því þrisvar."

„Ég sé fyrir mér að fara aftur til Englands einn daginn en framtíðin mín er á Íslandi, í bili alla vega,"
sagði hann í lokin.

Hewson leikur í dag með Grindavík og hefur verið að gera frábæra hluti. Hann á íslenska kærustu og eiga þau von á barni. Það eru því spennandi tímar framundan hjá kappanum.
Athugasemdir
banner
banner
banner