Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 21. nóvember 2017 17:30
Magnús Már Einarsson
Elísabet: Okkur hefur ekki tekist að fá unga íslenska leikmenn
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Eins og staðan er núna þá er ég ekki að skoða íslenska leikmenn," sagði Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska félagsins Kristianstad, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Elísabet var í gær valinn þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni en Kristianstad endaði í 5. sæti undir hennar stjórn. Elísabet reyndi að fá íslenska leikmenn til Kristianstad í haust en án árangurs.

„Ég gerði tilraunir áður en glugginn lokaði í haust og mistókst með þær tilraunir. Meðan þær vilja ekki koma þá verð ég að leita eitthvað annað," sagði Elísabet.

„Ég var í sambandi við tvö félög á Íslandi og þau sögðu í báðum tilvikum að leikmaðurinn hefði ekki áhuga á að koma."

Elísabet hefur þjálfað Kristianstad í níu ár og á þeim tíma hafa nokkrir íslenskir leikmenn leikið með félaginu. Sif Atladóttir er eini íslenski leikmaðurinn hjá Kristianstad í dag.

„Það er erfiðara að fá íslenska leikmenn núna en fyrir nokkrum árum. Ég ber virðingu fyrir því að leikmaður sé samningsbundinn félagi. Þá getur maður ekki gert annað en að hafa samband við félagið og þá verður maður að treysta því að leikmaðurinn fái að vera með í ráðum."

„Þetta voru tveir ungir varnarmenn sem ég var að reyna að fá og ég gat tryggt það að leikmaðurinn væri að spila ellefu leiki í efstu deild í Svíþjóð. Ég myndi aldrei vilja sleppa þeirri reynslu ef ég væri ungur leikmaður á Íslandi í dag. Maður getur alltaf farið aftur til baka heim og uppeldisfélagði myndi taka aftur við þér eftir ævintýri í útlöndum í níu af hverjum tíu skiptum."


„Strákarnir eru duglegri við að taka skrefið út. Það eru ekki sömu möguleikar í kvenna og karlaboltanum en við höfum reynt og okkur hefur ekki tekist að fá þessa ungu leikmenn hingað."

Sjá einnig:
Elísabet: Þetta kom mér mjög á óvart
Athugasemdir
banner
banner
banner