fim 07. desember 2017 15:00
Elvar Geir Magnússon
Of sólríkt fyrir England í bækistöðvum Íslands
Icelandair
Hótel Englands í Repino.
Hótel Englands í Repino.
Mynd: forRestMix
Hér er verið að reisa æfingasvæði enska landsliðsins.
Hér er verið að reisa æfingasvæði enska landsliðsins.
Mynd: The Sun
„Þér líður eins og þú sért á hjara veraldar. Það er lítið að gera og jafnvel enn minna að sjá," segir Neil Ashton, fréttamaður The Sun, um bæinn þar sem enska landsliðið mun hafa bækistöðvar á HM í Rússlandi á næsta ári.

England verður í bænum Repino við Finnlandsflóa en Ashton skellti sér í heimsókn þangað og skoðaði aðstæður. Það er óhætt að segja að hann hafi ekki verið hrifinn.

Guardian segir að enska knattspyrnusambandið hafi skoðað það að vera við Svartahafið, í strandbænum Gelendzhik þar sem Ísland er með sínar bækistöðvar. Southgate hafi þó ekki viljað fara á sólríkan stað og frekar valið Repino þar sem meðalhitinn er 16 gráður í júní.

„Það er einfaldlega ekkert að gera í Repino, næsta verslunargata við hótelið er nokkrum kílómetrum frá og er tóm og óheillandi gata. Í fimmtán mínútna fjarlægð er verið að byggja æfingasvæðið í Zelenogorsk, draugabæ sem er með nafn en virðist ekki hafa neina íbúa," segir Ashton.

Hér má sjá umfjöllun hans um Repino og fleiri myndir frá svæðinu.

Leikmenn Englands verða ansi einangraðir í Repino en Southgate leyfir þó vinum og ættingjum að koma í heimsókn.

Daniel Taylor hjá Guardian telur að Southgate sé að taka talsverða áhættu með vali sínu á bækistöðvum.

„Leikmenn Englands hafa kvartað yfir því að hafa leiðst og verið einangraðir í fyrri mótum. Það var mest áberandi þegar liðið var staðsett í Rustenburg á HM í Suður-Afríku 2010," segir Taylor.

Strákarnir okkar í íslenska liðinu verða á stað sem er talsvert meira spennandi. Strandbærinn Gelendzhik er túristastaður og Tripadvisor mælir með jeppa- og bátsferðum, dýragarðinum, keilusalnum og útsýnisferðum. Svo eru strákarnir með rennibraut við sundlaugina í hótelgarðinum!

Sjá einnig:
Myndir: Hér mun íslenska landsliðið búa í Rússlandi
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner