Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mán 11. desember 2017 15:51
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Heimir Guðjóns: Spennandi verkefni að koma HB aftur á toppinn
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn en þar ræddi hann meðal annars um nýja verkefni sitt í Færeyjum.

Heimir raðaði inn titlum hjá FH en var látinn taka pokann sinn eftir síðasta tímabil. Hann var þá ráðinn þjálfari færeyska félagsins HB.

„Ég fer 8. janúar og þá byrjar undirbúningstímabilið fyrir alvöru. Ég fór fyrir þremur vikum og var þarna í eina viku þar sem ég var með nokkrar æfingar og setti upp lyftingaprógramm. Það er til 20. desember og aðstoðarþjálfarinn sér um það," segir Heimir.

Hann hefur verið að horfa á upptökur af leikjum HB frá því í sumar og er strax kominn með það í hugann hvar styrkja þurfi liðið. Líklegt er að liðið fái liðsstyrk frá Danmörku.

„Það er góð tenging við Danmörku. Á síðustu leiktíð voru þrír Danir og einn Makedóníumaður í liðinu. Tveir af þessum Dönum fara og það þarf að fá leikmenn; hafsent, miðjumann og vængmann. Það þarf að styrkja þetta um þrjá leikmenn og maður er að skoða það núna. Það þyrfti helst að klára það í janúar."

Heimir segist ekki búinn að ræða við neinn íslenskan leikmann en það muni væntanlega gerast eftir áramót. Hann tekur undir það að vera í þarfagreiningu þessa stundina.

„Eitt stærsta vandamálið síðasta sumar var að liðið tapaði 23 stigum fyrir liðunum fyrir neðan sig. Það gekk vel gegn liðunum fyrir ofan. Það er eitt af því sem þarf að laga. Það er mikill metnaður þarna og menn vilja gera betur á næstu leiktíð. Menn eru til í að setja einhverja aura í þetta svo það sé mögulegt að keppa um titla."

„Það er mikill uppgangur í fótboltanum í Færeyjum. Liðin eru að verða betri og landsliðið hefur verið að bæta sig mikið þó menn telji það að fleiri leikmenn verði að spila erlendis í sterkari deildum."

HB endaði í fimmta sæti á síðasta tímabili, þrettán stigum frá toppnum.

„Þetta er tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og sjá hvort hugmyndafræðin virkar í Færeyjum. Það er spennandi verkefni að koma sigursælasta liði Færeyja aftur á þann stall sem þeir vilja vera, á toppinn. Ég er mjög spenntur," segir Heimir.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Heimi í heild sinni
Athugasemdir
banner
banner