þri 12. desember 2017 13:41
Elvar Geir Magnússon
Klopp: Hávær tónlist frá mótherjunum truflar mig ekki
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Mynd: Getty Images
Helsta umræðuefnið á Englandi eftir liðna helgi eru lætin sem sköpuðust eftir sigur Manchester City gegn Manchester United.

Það var mikill hiti við búningsklefana eftir leik og var Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, spurður út í málið á fréttamannafundi í dag.

„Við höfum gert eitt eða tvö jafntefli á heimavelli og ég hef heyrt háværa tónlist úr hinum klefanum. Það hefur ekki truflað mig neitt. Allt er leyfilegt ef þú sýnir hæfilega virðingu," sagði Klopp.

Létt skot frá Klopp á Jose Mourinho, stjóra Manchester United, en lætin á Old Trafford sköpuðust eftir að Mourinho varð pirraður yfir háværri tónlist sem komu úr klefa City.

Mönnum var heitt í hamsi og það kom til handalögmála. Romelu Lukaku kastaði flösku sem fór í Mikel Arteta, meðlim í þjálfarateymi Manchester City, svo skurður myndaðist á andliti hans.

Moreno meiddur - Lallan að snúa aftur
Annars var fréttamannafundur Klopp haldinn í tilefni þess að á morgun er leikur hjá Liverpool gegn West Bromwich Albion.

Bakvörðurinn Alberto Moreno er enn meiddur og getur ekki spilað á morgun. Það eru góðar fréttir af Adam Lallana sem er farinn að æfa af fullum krafti. Leikurinn á morgun kemur þó of snemma fyrir hann.

Klopp hefur mikið verið gagnrýndur fyrir fjölda breytinga sem hann er að gera milli leikja en hann varði það á fréttamannafundinum.

„Þegar þú ert með gæði eins og við höfum í hópnum þá þurfum við að nýta þau. Það er ekki hægt að spila sömu ellefu aftur og aftur þar til fjórir eru meiddir," segir Klopp.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner