mið 13. desember 2017 12:00
Elvar Geir Magnússon
Neymar fékk frí til að fara heim til Brasilíu
Kjaftasögurnar um Neymar flæða um allt.
Kjaftasögurnar um Neymar flæða um allt.
Mynd: Getty Images
Neymar mun missa af leik Paris Saint-Germain gegn Strasbourg í franska bikarnum í kvöld. Hann fékk frí til að fara heim til Brasilíu.

Umrædd heimsókn hefur aukið vangaveltur um að þessi dýrasti fótboltamaður heims sé ekki fullkomlega sáttur með lífið í París.

Neymar fékk frí vegna fjölskylduástæðna.

„Hann hringdi í mig á laugardagsmorgun til að segja mér að það væri mikilvægt mál varðandi fjölskyldu hans og spurði hvort hann mætti fara til Brasilíu. Það var mikilvægt fyrir hann," segir Unai Emery, þjálfari PSG.

„Mannlegi þátturinn er mikilvægur. Stundum er vinnan í bakgrunni."

Neymar hefur ekki sjálfur sett neitt á samskiptamiðla síðustu daga en franskir fjölmiðlar fundu mynd af honum í afmælisveislu hjá fjölskylduvini.

Neymar hefur verið mikill fjölmiðlamatur síðan hann mætti til Parísar og sögusagnir verið í gangi um að hann sé ekki fullkomlega sáttur í frönsku höfuðborginni. Sagt hefur verið að hann hafi verið í deilum við Emery og liðsfélagann Edinson Cavani.

Þá hefur verið talað um að aðrir leikmenn PSG séu ósáttir með að Neymar fái sérstaka meðhöndlun.


Athugasemdir
banner
banner
banner