Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   fim 14. desember 2017 17:30
Magnús Már Einarsson
Trausti æfir með Víkingi R. - Fá Senegala til skoðunar í janúar
Trausti í leiknum í gær.
Trausti í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Róbert Örn Óskarsson.
Róbert Örn Óskarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Trausti Sigurbjörnsson, fyrrum markvörður Þróttar og Hauka, varði mark Víkings í 3-1 sigri á Fjölni í Bose mótinu í gær. Róbert Örn Óskarsson, markvörður Víkings, hefur verið fjarri góðu gamni í mótinu vegna meiðsla.

„Hann er með meiðsli sem á eftir að klára að greina. Hann fer til sérfræðings í næstu viku. Þetta gæti verið brjósklos og hann hefur ekki viljað taka óþarfa sénsa á þessum tímapunkti. Hann er samt að æfa með okkur," sagði Heimir Gunnlaugsson, varaformaður knattspyrnudeildar Víkings, við Fótbolta.net í dag.

Kristófer Karl Jensson, varamarkvörður Víkings, er í skóla erlendis og því hafa Víkingar verið að skoða aðra markverði í Bose mótinu.

„Það er klárt að við munum þurfa annan markvörð. Það hafa hinir og þessir verið að prófa," sagði Heimir.

Í janúar er markvörður frá Senegal væntanlegur til landsins en um er að ræða leikmann sem hefur spilað í Noregi. Hann verður á reynslu hjá Víkingi.

Trausti, sem spilaði leikinn í gær, er án félags eftir að hann yfirgaf Hauka í haust.

„Ég hringdi í raun bara í (Hajrudin) Cardaklija (markmannsþjálfara) og athugaði stöðuna og fékk að æfa með þem núna meðan ég er að koma mér í gang. Þeir vildu líta á mig þannig það var gott fyrir báða," sagði Trausti við Fótbolta.net.

„Hvað gerist eftir þennan leik eða á næstunni hef ég bara ekki hugmynd um. Ég eignaðist annað barnið um miðjan október og er bara rólegur yfir því hvar ég enda."

Sjá einnig:
Sjáðu mörkin úr sigri Víkings R. á Fjölni
Athugasemdir
banner
banner
banner