lau 13. janúar 2018 20:30
Ingólfur Stefánsson
Gundogan: Væri lygari ef ég segði að Klopp hefði ekki reynt
Mynd: Getty Images
Ilkay Gundogan verður líklega í leikmannahóp Manchester City sem mætir Liverpool á Anfield á morgun. Leikmaðurinn spilaði undir Jurgen Klopp stjóra Liverpool á sínum tíma hjá Dortmund.

Gundogan gekk til liðs við City árið 2016 þrátt fyrir að vera enn frá leik vegna aðgerðar sem hann fór í vegna hnémeiðsla. Klopp vildi fá leikmanninn til Liverpool á þessum tíma en Gundogan valdi Manchester City. Þrátt fyrir það eru þeir enn góðir vinir.

„Ég talaði við Klopp á þessum tíma. Honum líkaði alltaf vel við mig og ég væri að ljúga ef ég myndi segja að hann hafi ekki reynt að fá mig. Þegar Manchester City sýndi áhuga og ég fékk tækifæri til að spila undir Pep Guardiola var ég samt viss um að það var það sem ég vildi gera."

„Ég var leiður vegna meiðsla minna en Pep var samt viss um að ég væri sá leikmaður sem hann vildi. Það sýndi mér að það gæti ekki verið röng ákvörðun að koma hingað."

„Þetta eru tveir frábærir stjórar með mikinn metnað. Ég hef verið heppinn að fá að spila undir þeim báðum."


Manchester City hafa enn ekki tapað leik á tímabilinu en liðinu hefur ekki tekist að vinna á Anfield frá árinu 2008. Gundogan gerir sér grein fyrir því að leikurinn verði erfiður.

„Anfield er einn erfiðasti leikvangur í heimi að heimsækja og á góðum degi geta Liverpool unnið hvaða lið sem er."

„Við þurfum að sýna sama anda og við gerðum gegn Chelsea og Manchester United á útivelli. Við höfum unnið öll stórliðin á tímabilinu og viljum halda því áfram."

Athugasemdir
banner
banner