þri 16. janúar 2018 16:12
Elvar Geir Magnússon
Hólmbert: Mikill áhugi frá þjálfaranum seldi mér þetta
Menn binda miklar vonir við Hólmbert í Álasundi. Lars Bohinen þjálfari er lengst til hægri.
Menn binda miklar vonir við Hólmbert í Álasundi. Lars Bohinen þjálfari er lengst til hægri.
Mynd: Álasund
Hólmbert með ungum aðdáendum í Garðabænum.
Hólmbert með ungum aðdáendum í Garðabænum.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
„Tilfinningin er mjög góð og ég er mjög ánægður með þetta," segir sóknarmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson eftir að hafa skrifað undir samning við Álasund í Noregi.

„Mér líst mjög vel á klúbbinn. Hann býr yfir góðum aðstæðum og er með frábæran völl. Þrátt fyrir að hann sé í OBOS-ligaen (B-deildinni) þá er þetta stór klúbbur í Noregi og ég er spenntur fyrir þessu. Félagið stefnir á að komast beint upp aftur og vonandi tekst það. Það heldur nánast öllum leikmönnum."

Álasund féll úr norsku úrvalsdeildinni í fyrra en hjá félaginu eru þrír aðrir Íslendingar; Daníel Leó Grétarsson, Adam Örn Arnarson og Aron Elís Þrándarson.

„Það skemmir ekki þegar maður er að koma sér fyrir og svona að hafa stráka sem maður þekkir, það hjálpar bara. Eitt af því sem seldi mér það að koma hingað er líka áhuginn hjá þjálfaranum, hann lagði mikla áherslu á að fá mig. Það er gott að hafa þjálfara sem „fílar" mann."

Lars Bohinen, þjálfari Álasunds, var hjá Sandefjord og reyndi að fá Hólmbert þangað í fyrra.

Erlend félög hafa sýnt Hólmberti áhuga í gegnum árin og hann telur að þetta hafi verið rétti tímapunkturinn til að stökkva aftur út.

„Ég var ekki tilbúinn að fara út strax eftir að ég kom heim. Mér finnst ég hafa þroskast heilmikið síðan svo ég ákvað að kýla á þetta núna," segir Hólmbert.

Hann kom til Noregs á sunnudaginn og kláraði læknisskoðun í gær. Hann æfði svo með Álasundi í dag.

„Ég er bara fluttur út. Ég er á hóteli en næsta skref er að finna íbúð og svona."

Hólmbert skoraði 11 mörk í 19 leikjum fyrir Stjörnuna í Pepsi-deildinni í fyrra.

„Ég þakka Stjörnunni innilega fyrir tímann sem ég var þarna. Þeir höfðu trú á mér og komu mér í gott stand. Þjálfarateymið frábært og það var ekkert auðvelt að fara. Mér leið mjög vel þarna. Ég hef fulla trú á því að liðið verði í toppbaráttunni í sumar," segir Hólmbert að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner