Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 17. janúar 2018 17:22
Elvar Geir Magnússon
Grétar um Þrótt: Gerðu ekki það sem til þurfti til að fara upp
Grétar segir mögulegt að hann leggi skóna á hilluna.
Grétar segir mögulegt að hann leggi skóna á hilluna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Grétar Sigfinnur Sigurðarson er hættur hjá Þrótti eins og greint var frá í gær.

Þessi 35 ára leikmaður sagði í viðtali í Akraborginni á X977 að það hafi verið sín ákvörðun að segja skilið við Þrótt, hann hafi talið tíma sínum betur varið annarstaðar.

Grétar var eitt tímabil hjá Þrótturum í Inkasso-deildinni og vonaðist til að hjálpa liðinu aftur upp í Pepsi-deildina. Liðið hafnaði í þriðja sæti og segir að félagið hafi gert mistök með því að styrkja sig ekki í sumarglugganum.

„Það urðu kaflaskil eftir gluggann. Keflavík og Fylkir fengu sterka leikmenn og gerðu það sem til þurfti til að komast upp. Við gerðum það ekki. Eftir tímabilið vildi ég skoða mín mál og tók mér tíma í það. Á endanum tók ég þá ákvörðun að þetta væri ekki það sem ég væri tilbúinn að gera," segir Grétar.

„Mér fannst ég ekki sjá fyrir endann á því hvort við værum tilbúnir að fá þá leikmenn sem ég vildi sjá. Það voru engir leikmenn komnir. Þegar maður er að pirra sig á svona hlutum er maður ekki 100% fókuseraður. Þetta var bara mín persónulega ákvörðun."

Grétar vonast til að halda áfram í boltanum en ef ekkert spennandi kemur á borðið segir hann að skórnir muni fara á hilluna. „Þá er bara frábær ferill að baki," segir Grétar.

Hann segir að engar viðræður séu komnar af stað og að hann sé ekki í viðræðum við Fylki en sögur hafa verið í gangi um að hann gæti farið í Árbæinn.

„Það er ekkert til í því. Þetta er bara slúður."

Viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan:

Athugasemdir
banner
banner
banner