sun 21. janúar 2018 21:41
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Jafnt hjá Inter og Roma
Mynd: Getty Images
AC Milan vann sinn annan leik í röð er liðið heimsótti Cagliari í Serie A í dag.

Nicolo Barella kom Cagliari yfir snemma leiks en Franck Kessie jafnaði úr vítaspyrnu og kom gestunum yfir skömmu síðar.

Ricardo Rodriguez, vinstri bakvörður Milan, fékk sitt annað gula spjald á 80. mínútu og var Barella rekinn útaf í liði heimamanna átta mínútum síðar.

Inter mætti þá Roma í stórleik helgarinnar og kom Stephan El Shaarawy gestunum yfir eftir hálftíma.

Alisson, markvörður Roma, átti þá sendingu langt upp völlinn og náði El Shaarawy að taka knöttinn með sér og skora.

Heimamenn komust nálægt því að jafna nokkrum sinnum en Alisson var stórkostlegur á milli stanganna og hélt í forystuna fyrir Rómverja.

Það var ekki fyrr en undir lokin sem heimamenn skoruðu verðskuldað jöfnunarmark. Matias Vecino skallaði þá fyrirgjöf Marcelo Brozovic í netið af stuttu færi.

Milan er tveimur stigum frá evrópusæti eftir sigurinn. Inter er í fjórða sæti, með þremur stigum meira en Roma sem er í fimmta.

Cagliari 1 - 2 AC Milan
1-0 Nicolo Barella ('8)
1-1 Franck Kessie ('36, víti)
1-2 Franck Kessie ('42)
Rautt spjald: Ricardo Rodriguez, Milan ('80)
Rautt spjald: Nicolo Barella, Cagliari ('88)

Inter 1 - 1 Roma
0-1 Stephan El Shaarawy ('31)
1-1 Matias Vecino ('86)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner