mið 14. febrúar 2018 18:00
Magnús Már Einarsson
Stjóri Wigan vill spila með 14 leikmenn gegn Man City
Wigan mætir Manchester City á mánudaginn.
Wigan mætir Manchester City á mánudaginn.
Mynd: Getty Images
„Við erum að óska eftir sérstöku leyfi hjá enska knattspyrnusambandinu til láta 14 leikmenn spila," sagði Paul Cook, stjóri Wigan, léttur í bragði þegar hann var spurður út í leikinn gegn Manchester City í enska bikarnum á mánudagskvöld.

Manchester City hefur verið óstöðvandi á þessu tímabili og Cook og lærisveinar hans eiga verðugt verkefni fyrir höndum.

„Þú verður að passa þig á því sem þú segir stundum en það eina sem þú getur gert er að hrósa Man City fyrir það hvað þeir eru að gera og hversu góðir þeir eru."

„Raunveruleikinn fyrir okkur er að við verðum að reyna að vinna þá. Þeir virðast vinna þægilega sigra á móti öllum liðum sem þeir mæta."

Wigan varð enskur bikarmeistari árið 2013 en þá vann liðið einmitt Manchester City í úrslitaleik. Wigan féll í sömu viku úr ensku úrvalsdeildinni en liðið er í dag í 2. sæti í ensku C-deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner