mið 21. febrúar 2018 12:30
Elvar Geir Magnússon
Conte: Hefðum framið sjálfsmorð með öðru kerfi
Antonio Conte, stjóri Chelsea.
Antonio Conte, stjóri Chelsea.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Antonio Conte, stjóri Chelsea, ver ákvörðun sína varðandi leikkerfi í 1-1 leiknum gegn Barcelona á Stamford Bridge í gær. Hann segir að það hefði verið framið „sjálfsmorð" með því að nota annað kerfi.

Eden Hazard var fölsk nía og Willian og Pedro á vængjunum í 3-4-3 leikkerfi.

Einhverjir telja að það hefði verið betra að spila með Alvaro Morata eða Olivier Giroud í þessum fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Fréttamaður spurði Conte hvort það hefði verið betra að spila 3-5-2 leikkerfi en Conte segir að það hefði ekki virkað gegn öflugu liði Börsunga.

„Það er svekkjandi að hafa ekki unnið og maður sér eftir ákveðnum hlutum. Gegn liði eins og Barcelona þarf fullkomna frammistöðu til að vinna. Við gerðum það 9/10 af leiknum en var refsað fyrir einu mistökin. Við verðum að eiga magnaða frammistöðu á Nou Camp," segir Conte.

„Ef við hefðum spilað með Alvaro Morata frá byrjun, með hann og Eden Hazard en sleppt Willian eða Pedro, hefðum við misst jafnvægi. Við hefðum framið sjálfsmorð."

Seinni leikurinn verður á Spáni þann 14. mars.

Conte kom varnarmanninum Andreas Christensen til varnar eftir leikinn í gær.

Lionel Messi jafnaði í síðari hálfleik eftir mistök hjá Christensen. Daninn átti þá þversendingu sem fór beint á Andres Iniesta og hann lagði boltann á Messi sem skoraði.

„Ég tel að frammistaðan hjá Christensen hafi verið mjög góð. Þetta var ótrúleg frammistaða. Við erum að tala um leikmann sem er einungis 21 árs hér," sagði Conte.

„Það er frábært að hann geti spilað leiki af þessum þroska. Ég er mjög ánægður með hann. Hann var einn af bestu leikmönnunum í kvöld."
Athugasemdir
banner