fös 23. febrúar 2018 20:30
Ingólfur Stefánsson
Guardiola fær ákæru fyrir gula nælu
Guardiola og nælan
Guardiola og nælan
Mynd: Getty Images
Enska knattspyrnusambandið hefur lagt ákæru á hendur Pep Guardiola þjálfara Manchester City vegna gulrar nælu sem hann hefur borið í undanförnum leikjum.

Nælan er stuðningstákn fyrir sjálfstæða Katalóníu. Pep hefur borið næluna til stuðnings baráttufólki og stjórnmálafólki sem hefur verið fangelsað í baráttu sinni fyrir sjálfstæðri Katalóníu.

Jose Mourinho vakti athygli á nælunni á fréttamannafundi í desember á síðasta ári og hafa margir velt því fyrir sér síðan þá hvort svona hlutir eigi heima á fótboltavellinum.

Samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins mega leikmenn og þjálfarar ekki bera klæðnað eða aukahluti sem sýna pólitíska eða trúarlega afstöðu þeirra.

Guardiola hefur tíma til 5. mars til þess að svara ásökununum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner