Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 24. febrúar 2018 15:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arna Sif komin heim í Þór/KA (Staðfest)
Arna Sif er farin í uppeldisfélag sitt.
Arna Sif er farin í uppeldisfélag sitt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna í leik með Þór/KA.
Arna í leik með Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Varnarmaðurinn Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur ákveðið að ganga í raðir uppeldisfélagsins, Þórs/KA og mun hún leika með liðinu í sumar. Þetta staðfestir hún í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Ég er flutt heim til Akureyrar og ætla að spila með Þór/KA næstu tvö árin hið minnsta," segir Arna.

Arna, sem er fædd 1992, hefur spilað með Val síðustu tvö sumur en árið 2015 lék hún með Kopparsberg/Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni. Áður en hún fór til Svíþjóðar skoraði hún 30 mörk í 155 deildar og bikarleikjum með Þór/KA.

Hún var síðast á mála hjá Verona á Ítalíu en það ævintýri fór ekki eins og búist var við. Arna og vinkona hennar, Berglind Björg Þorvaldsdóttir sögðu frá tímanum á Ítalíu í viðtali við Fótbolta.net í dag.

„Ég er mjög ánægð með að vera komin heim eftir tvö frábær ár með Val. Mér finnst ég eiga mikið inni og langaði að koma heim og finna mig aðeins. Þannig að framundan er bara að æfa vel, komast inn í allt hér og undirbúa sig vel fyrir komandi tímabil," segir Arna.

Arna var lykilmaður í liði Þórs/KA sem varð Íslandsmeistari árið 2012 en liðið varð Íslandsmeistari í annað sinn síðasta sumar. Arna ætlar að hjálpa liðinu að verja titilinn.

Berglind Björg, vinkona Örnu sem var með henni á Ítalíu, er byrjuð aftur að æfa með Breiðabliki en hún var í láni frá Blikum.

„Ég er byrjuð að æfa á fullu með Breiðablik og vinna upp þessa mánuði sem maður missti af. Það er búið að taka gríðarlega á að sitja á hliðarlínunni og horfa á þær spila en núna getur maður farið að æfa á fullu og koma sér í gott stand fyrir átökin í sumar," sagði Berglind sem raðaði inn mörkum með Blikum síðasta sumar.

Arna á 12 A-landsleiki að baki og eitt landsliðsmark og þá á Berglind Björg 30 A-landsleiki og hefur hún skorað í þeim tvö mörk.
Athugasemdir
banner