banner
   þri 13. mars 2018 20:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Biðst afsökunar á að hafa ruðst inn á völlinn með byssu
Mynd: Daily Mail
Gríska úrvalsdeildin er komin í frí eftir að eigandi PAOK gekk berserkjagang eftir leik liðsins gegn AEK á sunnudag.

Leikurinn endaði markalaus en á 90. mínútu hélt Fernando Varela, miðvörður PAOK, að hann hefði náð að pota inn sigurmarkinu. Varela var hins vegar dæmdur rangstæður og allt varð brjálað.

Ivan Savvidis, forseti PAOK, óð inn á völlinn, með byssu hangandi í hulstri á gallabuxum sínum.

FIFA hvatti grísk yfirvöld að taka málin í sínar hendur og nú hefur það verið gert. Íþrottamálaráðherra Grikklands fundaði með forsætisráðherranum í gær og fékkst sú niðurstaða að gera hlé á grísku úrvalsdeildinni í óákveðinn tíma.

Mikil læti hafa verið í grísku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og verða hlutirnir að lagast ef hún á að hefjast að nýju.

Savvidis hefur beðist afsökunar en hann segir að það hafi ekki verið planið hjá sér að meiða neinn, sem hann gerði reyndar ekki.

„Ég biðst afsökunar. Ég átti ekki rétt á því að ryðjast inn á völlinn með þessum hætti," sagði Savvidis.

„Mitt eina markmið var að verja aðdáendur PAOK."
Athugasemdir
banner
banner