mið 14. mars 2018 15:45
Magnús Már Einarsson
Mist sleit aftur krossband - „Ekkert svo langt í þarnæsta Íslandsmót"
Mist Edvardsdóttir.
Mist Edvardsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist Edvardsdóttir, leikmaður Vals, verður væntanlega ekkert með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar en allt bendir til þess að hún hafi slitið krossband í annað skipti á jafnmörgum árum.

Mist gat ekkert spilað með Val á síðasta tímabili þar sem hún sleit krossband í fyrravetur. Mist meiddist aftur í síðustu viku og allt bendir til þess að krossbandið hafi slitnað þar.

„Við vorum í spili undir lok æfingar á mánudaginn í síðustu viku, einungis annarri heilu fótboltaæfingunni minni rúmu ári eftir aðgerð. Ég er að stinga mér inn í sendingu þegar hnéð bara gefur sig og ég finn smellinn," sagði Mist við Fótbolta.net í dag.

„Öll einkennin voru strax óþægilega kunnuleg og ég hitti síðan lækninn minn daginn eftir og greiningin er sú að krossbandið sé líklegast slitið aftur. Ég fer í segulómun í lok vikunnar til að staðfesta þetta."

„Ég reikna með því að fara aftur í aðgerð í apríl og gera þá vonandi við þetta hné fyrir fullt og allt. Það er ekkert svo langt í þarnæsta Íslandsmót,"
sagði Mist létt í bragði og bjartsýn að lokum.

Mist er 27 ára gömul og uppalin í Aftureldingu. Mist hefur verið í lykilhlutverki hjá Val síðan hún kom til félagsins frá KR fyrir sumarið 2011. Þá á hún þrettán landsleiki að baki.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner