mán 19. mars 2018 20:30
Ingólfur Stefánsson
Bertrand: Hughes getur bjargað okkur
Ryan Bertrand í baráttunni við Jóhann Berg Guðmundsson
Ryan Bertrand í baráttunni við Jóhann Berg Guðmundsson
Mynd: Getty Images
Ryan Bertrand varnarmaður Southampton hefur mikla trú á Mark Hughes nýráðnum þjálfara liðsins og telur að hann geti bjargað liðinu frá falli.

Hughes stjórnaði sínum fyrsta leik í 2-0 sigri á Wigan í FA bikarnum á sunnudag og tryggði Southampton áfram í undanúrslit þar sem liðið mætir Chelsea á Wembley.

Þrátt fyrir gott gengi í FA bikarnum þýddi sigur Crystal Palace gegn Huddersfield á laugardag að Southampton séu komnir aftur á fallsvæði í deildarkeppninni.

Hughes hefur átta leiki til þess að bjarga liðinu en hann tók við því af Mauricio Pellegrino síðasta miðvikudag. Bertrand hefur trú á verkefninu og hefur heillast af því sem hann hefur séð af Hughes hingað til.

„Ég hlakka til að spila restina af tímabilinu undir hans stjórn. Hann hefur mikla reynslu og vonandi getum við lært af honum og gert það sem við þurfum að gera."

Dýrlingarnir eru tveimur stigum frá öruggu sæti og hafa einungis unnið einn sigur í síðustu 17 leikjum sínum í deildinni. 3-0 tap gegn Newcastle var síðasta stráið fyrir Pellegrino.

Bertrand segir að leikmenn liðsins beri ábyrgð á brotthvarfi Pellegrino og þurfi nú að sýna hvað í þeim býr. Leikmaðurinn er í enska landsliðshópnum sem mætir Hollandi og Þýskalandi í vináttulandsleikjum næstu helgi.

Eftir landsleikina á Southampton gríðarlega mikilvægan leik fyrir höndum gegn West Ham í botnbaráttunni.

„Þetta verður risa leikur. Okkur hlakkar til að taka þátt í honum, það þýðir ekkert annað. Við þurfum að njóta augnabliksins og reyna að ná jákvæðum úrslitum og byggja á þeim."
Athugasemdir
banner
banner
banner