Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 22. mars 2018 22:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Helgi Sig: Er ekki að fara í eitthvað „panikk"
Helgi kom Fylki beint upp í Pepsi-deildina á nýjan leik.
Helgi kom Fylki beint upp í Pepsi-deildina á nýjan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Helgi Valur tekur slaginn með Fylki í sumar.
Helgi Valur tekur slaginn með Fylki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Við erum með marga unga og efnilega stráka í liðinu sem eru að þreyta sína frumraun í Pepsi-deildinni og það er mjög jákvætt fyrir allt umhverfið í Árbænum og Fylki, að sjá sína stráka fá tækifæri.
,,Við erum með marga unga og efnilega stráka í liðinu sem eru að þreyta sína frumraun í Pepsi-deildinni og það er mjög jákvætt fyrir allt umhverfið í Árbænum og Fylki, að sjá sína stráka fá tækifæri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr úrslitaleik Reykjavíkurmótsins. Fjölnismenn unnu þann leik.
Úr úrslitaleik Reykjavíkurmótsins. Fjölnismenn unnu þann leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi er bjartsýnn á gott gengi.
Helgi er bjartsýnn á gott gengi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkismenn eru nýliðar í Pepsi-deild karla í sumar eftir stutt stopp í Inkasso-deildinni. Liðið hefur haft hægt um sig á leikmannamarkaðnum en Helgi Sigurðsson, þjálfari liðsins, er þó ánægður með það sem hefur átt sér stað.

„Það hefur gengið vel að fá þá menn sem við höfum viljað fá," sagði Helgi við Fótbolta.net. „Við ákváðum það snemma að vera ekki að bæta við mannskap bara til þess að bæta við mannskap."

„Við töldum okkur vera með fínan hóp í höndunum og stráka sem við treystum fullkomlega fyrir góðu verki í sumar. Við höfum sloppið við öll stór meiðsli þannig að við ákváðum að vera rólegir á markaðnum. Við erum tiltölulega sáttir. Við höfum ekki verið að reyna við marga leikmenn í vetur."

Helgi góð viðbót innan sem utan vallar
Tilkynnt var í byrjun ársins að Helgi Valur Daníelsson, fyrrum landsliðsmaður, myndi taka skóna af hillunni til að spila með uppeldisfélaginu í sumar.

Helgi Valur er 36 ára gamall en hann hefur starfað undanfarið eitt og hálft ár hjá eiturlyfjaeftirliti Evrópu í Lisabon.

„Helgi Valur þekkir allt í Fylki og það er mjög gott að fá svona reynslumikinn mann inn. Hann hefur spilað 33 landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur góða reynslu úr atvinnumennsku. Hann mun reynast okkur vel. Hann hittir okkur í æfingaferð á Spáni og fer svo með okkur heim. Hann verður mjög góð viðbót hjá okkur, bæði innan sem utan vallar," segir Helgi Sigurðsson.

Það kom á óvart þegar Jonathan Glenn samdi við Fylki. Glenn er þrítugur en hann þekkir vel til á Íslandi eftir að hafa komið hingað fyrst árið 2014 til að spila með ÍBV. Hann skoraði 30 mörk í 63 leikjum í Pepsi-deildinni og Borgunarbikarnum á árunum 2014 til 2016 en hann vann silfurskóinn í deildinni bæði árið 2014 og 2015. Hann lék einnig með Breiðabliki hér á landi áður en hann fór til Bandaríkjanna eftir tímabilið 2016.

Helgi var sóknarmaður á sínum leikmannaferli og hann hefur trú á því að Glenn geti skorað nokkur mörk í sumar.

„Útlendingur sem er búinn að spila hér í þrjú ár og taka tvo silfurskói hlýtur að vera maður sem getur eitthvað. Við vonumst náttúrulega til þess að hann finni aftur markaskóna sína og hjálpi okkur að bæta sóknarleik liðsins."

„Ég treysti á það að hann muni skora mörk, sem og aðrir í liðinu. Við erum með mjög öfluga framherja og erum með bæði kantmenn og miðjumenn sem eiga að geta skorað mörk. Mörkin okkar munu koma úr mörgum mismunandi áttum, eins og hefur verið í vetur, við höfum skorað mikið af mörkum og þau hafa dreifst vel."

Helgi segir ekki miklar líkur á því að fleiri leikmenn bætist við hópinn fyrir mót. „Það eru meiri líkur en minni að við séum ekki að fara að bæta við," segir hann.

„Ég er mjög sáttur við hópinn. Auðvitað væri maður alltaf til í einn, tvo leikmenn í viðbót en það verður þá að vera einhver leikmaður sem ég tel henta hópnum og maður sem bætir hópinn. Þeir eru ekki allir á lausu núna, ég er ekki að fara í eitthvað „panikk."

„Mjög jákvætt fyrir allt umhverfið í Árbænum"
„Við erum með marga unga og efnilega stráka í liðinu sem eru að þreyta sína frumraun í Pepsi-deildinni og það er mjög jákvætt fyrir allt umhverfið í Árbænum og Fylki, að sjá sína stráka fá tækifæri. Þetta gefur líka ungum krökkum í yngri flokkunum von um að þeir muni komast í meistaraflokkinn ef þeir standa sig vel. Við reynum að vinna þetta þannig að fyrst reynum við að finna góða leikmenn úr okkar herbúðum, ef okkur vantar einhverja leikmenn þá leitum við af þeim. Við teljum okkur vera með fínt lið í höndunum."

Fylkismenn hafa verið að standa sig vel á undirbúningstímabilinu og komust m.a. í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins.

„Við erum búnir að spila 11 í Reykjavíkurmóti og Lengjubikar, og unnu sex, þrjú jafntefli og tapað tveimur. Það verður að teljast nokkuð gott," segir Helgi.

„Við erum búin að spila við lið eins og Val, FH og KR og við höfum unnið þessi lið. Það hefur gengið mjög vel hjá okkur í vetur. Við fórum alla leið í úrslitaleikinn í Reykjavíkurmótinu en töpuðum þar gegn Fjölni í mjög jöfnum leik þar sem sigurinn hefði alveg eins getað dottið okkar megin. Við erum nokkuð brattir með veturinn."

„Ég hef gefið mörgum séns og þeir hafa allir staðið sig mjög vel. Hópurinn virðist vera þéttari en í fyrra, þetta er mitt annað tímabil þannig að menn þekkja betur orðið inn á mig og það sem ég vil. Ég þekki orðið leikmenn betur og þá gengur betur."

„Getum unnið öll lið en getum líka farið flatt"
„Ég sé til þess að menn mæti klárir þann 28. apríl þegar fyrsti leikur er á móti Víking á Víkingsvellinum," segir Helgi en hvernig verður undirbúningurinn fram að móti?

„Annars er það bara að æfa vel í rúma viku og svo er páskafrí. Eftir páskafríið förum við út til Spánar og verðum þar í viku. Ætli við spilum tvo til þrjá æfingaleiki fram að móti og reynum að fínpússa það sem við þurfum að fínpússa."

„Við verðum að halda því áfram sem við höfum verið að gera hingað til, njóta þess að vera í þessu saman. Um leið og menn hafa ekki lengur gaman af því að mæta á æfingar eða vera saman, þá er ekki von á góðu."

„Ég er mjög bjartsýnn fyrir sumarið. Nýliðum verður oft spáð erfiðu gengi. Auðvitað getum við sagt að Fylkir séu nýliðar en við vorum bara eitt ár niðri og sem betur fer náðum við að koma okkur beint upp aftur. Þetta eru stákar sem eru með mikla reynslu margir hverjir úr Pepsi-deildinni og þeir vija sanna sig aftur."

„Hungrið og þráin að gera enn betur er svo sannarlega til staðar. Það gerir mig öruggan um að við munum gera góða hluti í sumar. Við getum unnið öll lið en við getum líka farið flatt ef við berum ekki virðingu fyrir andstæðingnum og okkar eigin getu. Við þurfum alltaf að vera auðmýkir gagnvart því."

„Við vitum að allir leikir eru erfiðir í þessari deild. Þetta verður miklu meiri áskorun en í fyrra," sagði Helgi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner