lau 24. mars 2018 04:36
Elvar Geir Magnússon
Einkunnir Íslands - Birkir Bjarna maður leiksins
Icelandair
Birkir Bjarna var valinn maður leiksins.
Birkir Bjarna var valinn maður leiksins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði 3-0 fyrir Mexíkó í vináttulandsleik í nótt, lokastaða leiksins gefur ekki rétta mynd af því sem gekk á í þessum leik. Ísland átti flotta spretti og komst nokkuð oft nálægt því að skora.

Mexíkóar refsuðu fyrir mistök.

Hér er einkunnagjöf íslenska liðsins eftir leikinn.

Rúnar Alex Rúnarsson 4
Mjög misjöfn frammistaða frá honum. Misreiknaði sig illilega í þriðja markinu. Hefur gert of mörg mistök þegar hann klæðist landsliðstreyjunni.

Birkir Már Sævarsson 7
Átti skínandi flottan fyrri hálfleik en vék í hálfleiknum. Nýtti hraða sinn til að stöðva stórhættulega sókn Mexíkóa

Kári Árnason 7
Kári gríðarlega drjúgur í hjarta varnarinnar og setur tóninn fyrir restina af liðinu.

Sverrir Ingi Ingason 5
Ógnandi sóknarlega í föstum leikatriðum. Tapaði boltanum í öðru marki Mexíkóa og það dregur hann aðeins niður. Var öflugri í miðverðinum en á miðjunni, þar sem hann lék í seinni hálfleiknum.

Ari Freyr Skúlason 5
Það mæddi mikið á Ara. Gerði oft vel en gerði einnig mistök, til að mynda í öðru markinu þegar hann fór úr stöðu.

Jóhann Berg Guðmundsson 7
Var óheppinn að skora ekki í fyrri hálfleiknum. Átti hættulegar fyrirgjafir og átti fínan leik.

Aron Einar Gunnarsson 7
Gaman að sjá fyrirliðann aftur á fótboltavellinum. Lék fyrri hálfleikinn og gerði það af yfirvegun og festu. Var sárt saknað eftir að hann fór af velli.

Emil Hallfreðsson 6
Átti sérstaklega fínan fyrri hálfleik.

Birkir Bjarnason 8 – Maður leiksins
Flott frammistaða frá Birki á kantinum. Lagði líf og sál í þetta eins og venjan er þegar hann klæðist landsliðstreyjunni.

Björn Bergmann Sigurðarson 6
Sýndi gæði sín vel á köflum en hefði getað verið meira áberandi í leiknum.

Albert Guðmundsson 7
Fín frammistaða, sýndi góða pressu og skilaði boltanum vel frá sér.

Varamenn:

Hólmar Örn Eyjólfsson 6
Kom inn í hálfleik. Hefði mögulega getað gert betur í öðru marki Mexíkóa en var annars fínn.

Samúel Kári Friðjónsson 6
Kom ágætlega inn í hálfleik.

Viðar Örn Kjartansson 6
Átti stangarskot og kom ákveðinn inn á.

Rúrik Gíslason 6
Ágætis innkoma.

Kjartan Henry Finnbogason
Spilaði of stutt til að fá einkunn.

Theodór Elmar Bjarnason
Spilaði of stutt til að fá einkunn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner