Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 24. mars 2018 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Palli: Erlendu leikmennirnir voru ekki nægilega góðir
Ólafur Páll ræðir hér við aðstoðarmann sinn, ,,herra Fjölnir Gunnar Má Guðmundsson
Ólafur Páll ræðir hér við aðstoðarmann sinn, ,,herra Fjölnir Gunnar Má Guðmundsson"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bergsveinn er kominn aftur í Fjölni eftir að hafa leikið með FH.
Bergsveinn er kominn aftur í Fjölni eftir að hafa leikið með FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fjölnir endaði í tíunda sæti á síðustu leiktíð.
Fjölnir endaði í tíunda sæti á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur er fyrrum leikmaður Fjölnis. Hann er núna sestur í þjálfarastólinn. ,,Ég er bæði bjartsýnn og spenntur. Það verður rosalega gaman að takast á við þetta hlutverk
Ólafur er fyrrum leikmaður Fjölnis. Hann er núna sestur í þjálfarastólinn. ,,Ég er bæði bjartsýnn og spenntur. Það verður rosalega gaman að takast á við þetta hlutverk
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur Páll Snorrason er með sína drengi í Fjölni í æfingaferð á Spáni þessa daganna. Blaðamaður Fótbolta.net sló á þráðinn hjá honum í dag og heyrði í honum hljóðið.

Ólafur tók við Fjölni af Ágústi Gylfasyni eftir síðasta tímabil. Ólafur, sem er fyrrum leikmaður og aðstoðarþjálfari Fjölnis, var aðstoðarmaður Heimis Guðjónssonar hjá FH á síðasta tímabili.

„Það er allt öðruvísi að vera þjálfari heldur en aðstoðarmaður eða leikmaður," er það fyrsta sem Óli Palli segir við undirritaðan. „Það er að miklu meira að hyggja í því."

„Frábærir fótboltamenn á besta aldri"
Fjölnismenn hafa gert stóra hluti á leikmannamarkaðnum í vetur og fengið til sín stóra pósta eins og Bergsvein Ólafsson, Guðmund Karl Guðmundsson og Almarr Ormarsson en þeir tveir fyrrnefndu eru uppaldir í Grafarvoginum.

„Þetta eru frábærir fótboltamenn á besta aldri og það skemmir ekki fyrir að tveir af þeim eru uppaldir Fjölnismenn. Þeir hafa allir komið öflugir inn í þetta. Við erum ánægðir með þá þrjá og Arnór Breka og Sigurpál líka," sagði Óli Palli en Fjölnir hefur líka fengið Arnór Breka Ásþórsson frá Aftureldingu og Sigurpál Melberg Pálsson, sem var fyrirliði Fram á síðustu leiktíð.

Sjá einnig:
Bergsveinn: Átti ekki samleið með Óla Kristjáns


„Þeir eru akkúrat með karakterinn sem við þurftum og vorum að leita af. Þeir hafa smollið vel inn í hópinn."

Er von á fleiri leikmönnum í Grafarvoginn áður en mótið hefst?

„Ég geri ráð fyrir því að fá að minnsta kosti einn leikmann áður en mótið byrjar," er svar Óla við þeirri spurningu. „Ég er fyrst og fremst að leita að sóknarmanni. Vonandi verður það klárt á næstu vikum. Ef eitthvað spennandi skyldi detta inn á borðið, þá verður það skoðað."

Erlendu leikmennirnir ekki nægilega góðir
Fimm af útlendingunum sem spiluðu í Fjölni í fyrra, þeir Ivica Dzolan , Linus Olsson, Marcus Solberg, Mees Siers og Fredrik Michaelsen eru horfnir á braut. Enginn útlendingur hefur komið í staðinn. Var það meðvituð ákvörðun, að losa sig við alla þessa erlendu leikmenn og fá engann erlendan inn í staðinn?

„Fyrst og fremst er ástæðan fyrir því, að ég lét þessa erlendu leikmenn sem fyrir voru fara er sú að þeir voru einfaldlega ekki nægilega góðir. Það var aðalástæðan fyrir því að þeir fóru."

„Já það gæti mögulega orðið þannig," sagði Ólafur aðspurður að því hvort hann gæti bætt við erlendum leikmanni fyrir mót. „Það eru bæðir erlendir og íslenskir leikmenn í sigtinu. Við sjáum bara til."

„Það verður brýnt á öllum vængjum"
Undirbúningstímabilið hefur verið nokkuð flott hjá Fjölni og varð liðið Reykjavíkurmeistari í fyrsta sinn í febrúar. Liðið endaði svo í þriðja sæti í sínum riðli í Lengjubikarnum með átta stig.

„Ég er sáttur með undirbúningstímabilið hingað til. Við erum í æfingaferð á Spáni sem er rétt að hefjast, það er fyrsta skrefið í lokaundirbúningnum fyrir mótið. Ferðin fer vel af stað. Svo tekur við þetta skrýtna fjögurra vikna æfingaleikja, skipulagslausa skrýtna tímabil fyrir mót. Við verðum bara að vinna úr því."

Um að vinna Reykjavíkurmótið segir hann:

„Það var flott að vinna Reykjavíkurmótið í fyrsta sinn í sögu félagsins. Það er hins vegar þannig að þetta mót gefur okkur, í rauninni ekki neitt. Önnur lið eru að verða betri og við verðum að gera það líka til að ná árangri í sumar."

Fyrsti leikur Fjölnis í Pepsi-deildinni er gegn KA á Extra-vellinum í Grafarvogi. Það er rétt rúmur mánuður í þann leik. Hvað ætlar Óli Palli að gera svo Fjölnisliðið mæti klárt gegn KA-mönnum?

„Við þurfum að skerpa á forminu á leikmönnum og halda áfram að vinna með okkar hugmyndafræði, bara í sóknarleik og varnarleik. Það eru ýmis atriði sem gott er að hafa í huga fyrir mót og það verður brýnt á öllum vængjum."

„Það er mikilvægt að skipulagið og formið verði sem best."

Eins og fyrr segir er Ólafur á leið í sitt fyrsta tímabil sem aðalþjálfari. Hann kveðst spenntur.

„Ég er bæði bjartsýnn og spenntur. Það verður rosalega gaman að takast á við þetta hlutverk. Ég er búinn að vera í þessu lengi sem leikmaður, og líka sem aðstoðarþjálfari. Ég er mjög spenntur," sagði Ólafur Páll áður en hann kvaddi frá Spáni.
Athugasemdir
banner
banner
banner