Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fös 20. apríl 2018 11:05
Magnús Már Einarsson
Stuðningsmenn Arsenal svara - Hver á að taka við af Wenger?
Tekur Vieira við af Wenger?
Tekur Vieira við af Wenger?
Mynd: Getty Images
Wenger hefur verið í tæp 22 ár hjá Arsenal.
Wenger hefur verið í tæp 22 ár hjá Arsenal.
Mynd: Getty Images
Massimiliano Allegri er þjálfari sem stuðningsmenn Arsenal eru hrifnir af.
Massimiliano Allegri er þjálfari sem stuðningsmenn Arsenal eru hrifnir af.
Mynd: Getty Images
Patrick Vieira var fyrirliði Arsenal í áraraðir.
Patrick Vieira var fyrirliði Arsenal í áraraðir.
Mynd: Getty Images
Arsene Wenger tilkynnti í morgun að hann ætli að hætta sem stjóri Arsenal í sumar eftir tæp 22 ár í starfi.

Fótbolti.net leitaði til valinkunna stuðningsmenn Arsenal og fékk þá til að svara tveimur spurningum. Er þetta rétt ákvörðun hjá Wenger? og Hver á að taka við Arsenal af Wenger?.



Jón Kaldal, sparkspekingur
„Love & support forever“ - Tilfinningarnar eru mjög blendnar. Ég fékk kökk í hálsinn þegar ég las tilkynninguna frá Wenger en þetta er samt tímabært. Allt frá því hann fékk nýjan tveggja ára samning vorið 2017 hef ég verið sannfærður um að hann myndi engu að síður hætta í vor. Og hann yrði hreinlega að hætta enda væri það félaginu fyrir bestu. Eins furðulega að það hljómar komu tíðindin í morgun mér þó fáránlega mikið á óvart. Enginn annar hefði getað gert það sama fyrir Arsenal og Wenger. Það var stórbrotið afrek að halda félaginu í toppbaráttu á sama tíma og Emirates völlurinn var byggður og peningarnir sem hann hafði úr að spila voru af mjög skornum skammti. Ef hann hefði bara verið að hugsa um sjálfan sig hefði hann farið til annars liðs. Hann gat valið milli bestu liða heims en Wenger keyrði í gegnum þessi mögru ár og skilaði að þeim loknum þremur FA bikurum. En tíminn nær okkur öllum á endanum og við höfum séð í vetur að Wenger tókst ekki að afsanna þá reglu.

Massimo Allegri hefur lengi verið efstur á óskalistanum mínum yfir mögulega arftaka. Arsenal þarf einhvern sem er allt öðruvísi en Wenger til að hrista upp í þessu. Ef við fáum hann ekki þá væri ég til í að sjá ungan, ákafan og efnilegan þjálfara taka við liðinu. Domenico Tedesco hjá Schalke hakar í öll boxin.

Einar Örn Jónsson, RÚV
Já, þetta var rétt ákvörðun og löngu orðin tîmabær.

Ég er veikur fyrir Max Allegri sem næsti þjálfari en myndi vel lifa með Luis Enrique eða Patrick Vieira. Svo er Domenico Tedesco áhugaverður karakter.

Sigurður Þórðarson, liðsstjóri landsliðsins
Ákvörðunin er hárrétt hjá honum, þó svo að mínu mati hafi hann mögulega átt að taka hana eftir bikartitillinn í fyrra og það sem hefur gerst á þessu ári hvað varðar mætingu á leiki hefði bara stigmagnast ef hann hefði ákveðið að sitja út samningstímann sinn við félagið. Það er reyndar annað sem er merkilegt við þetta allt saman - það að þetta er í fyrsta skipti sem Wenger klárar ekki samning sinn við það félag sem hann er samningsbundinn, orðinn 68 ára gamall. En hvað sem því líður er ég mjög sáttur við þess ákvörðun.

Maðurinn sem ég myndi setja í fyrsta sætið er Thomas Tuchel- hann hefur gert flott hluti í Þýskalandi. Ég hefði hinsvegar ekkert á móti því heldur að inn kæmi maður á borð við Patrick Vieira og að hann tæki með sér aðstoðarmenn á borð við Thierry Henry, Dennis Bergkamp og fleiri gamlar goðsagnir.

Tryggvi Guðmundsson, sparkspekingur
Hárrétt ákvörðun og eiginlega löngu kominn tími. Arsenal er bara orðið miðlungslið núna með menn á borð við Monreal, Chambers og aðra pappakassa í liðinu. Ég hef verið Wenger out maður í nokkur ár og fagna því þessu.

Alveg sama hver tekur við, bara glaður með að Wenger hætti.

Daníel Geir Moritz, Innkastið
Nú er að reisa styttu af Wenger, búa til frábæran góðgerðarleik og minnast alls hins góða sem þessi magnaði stjóri gerði fyrir Arsenal. Mögulega hefði hann átt að hætta eftir síðasta tímabil en ef hann vinnur Evrópudeildina er erfitt að setja út á þessa tímasetningu; enda yrðu það 4 titlar á 5 árum.

Það er rétt að hann hverfi af braut núna og vil ég sjá Steve Bould hverfa frá líka. Ég er spenntastur fyrir Patrick Vieira af þeim sem hafa verið nefndir. Okkur vantar nostalgíu í félagið og væri hann mjög spennandi kostur að mínu mati.

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17
Ég er fyrst og fremst ánægður að hann tók ákvörðunina sjálfur. Það er búið að bæta við nýju staffi í lykilstöður í kringum hann og líklegur hann metið það þannig að hann væri hægt og rólega að missa völd. Líklega rétt metið að stíga til hliðar.

Það væri rómantík í að fá Vieira en persónulega vil ég fá Allegri. Hins vegar er Þjóðverjum að fjölga í lykilstöðum og Tuchel endar líklega í svefnpokanum á næstu leiktíð.

Gunnar Birgisson, RÚV
Var það rétt ákvörðun hjá ABBA að hætta á hátindi ferilsins? Nei, þetta er svo langt frá því að vera rétt ákvörðun. Nú hefst hnignun, sem gæti staðið yfir nokkur ár fram í tímann. Félagið hefur átt í erfiðleikum og misst marga af sínum bestu leikmönnum undanfarin ár sem gerði það að verkum að endalaus uppbyggingarfasi var í gangi, en þá hafði félagið alltaf eina festu, Wenger, nú er sú festa farin og þá spyr maður sig hvað er það sem heillar við klúbbinn og hver framtíð klúbbsins er. Leikmenn eins og Özil tala um að þegar hann heyrði í Wenger þá vissi hann að Arsenal væri rétti klúbburinn fyrir sig. Özil skrifaði undir nýjan samning, flottur janúargluggi og með bætingu í tveimur stöðum virtist sjá fyrir endann á enn einni uppbyggingunni, nú er kippt undan henni fótunum. Wenger var hjartað í Arsenal liðinu. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Taka við? Það er svosem ómögulegt að feta í þessi fótspor en ég vil sjá mann sem hefur fengið þjálfun frá Wenger, leikmenn eins og Vieira og Henry hljóma vel og hafa reynslu af þjálfun. Auðvitað er enginn fullkominn og Wenger er það svo sannarlega ekki, en þeir gætu mögulega bætt það sem þeim fannst fara úrskeiðis undir hans valdatíð. Hann breytti fótboltanum á Englandi til framtíðar.

Einar Guðnason, Berserkir
Ég er enn að átta mig á þessu. Arsene Wenger er sá besti sem hefur þjálfað Arsenal í sögunni. Á sínum tíma var hann framúrstefnu þjálfari. Hans áhrif breyttu enska boltanum og gerði hann faglegri. Hann tók Arsenal mörg skref uppá við á sínum tíma. En þetta er góður tími til að skipta. Frammistaða innan vallar hefur verið á niðurleið innan vallar og óeining um klúbbinn utan vallar. Ég vona innilega að hann nái að enda þetta með stæl og við fáum titil í hús og félagið og stuðningsmenn kveðji þennan merkilega mann með virðingu. Það kemur væntanlega stytta við völlinn fljótlega.

Það er fullt af góðum þjálfurum þarna úti sem gætu gert góða hluti með félagið en ég er spenntur fyrir Allegri því hann er reyndur, taktískur, mun laga varnarleikinn og er sigurvegari. Annar sem ég er spenntur fyrir er Patrick Vieira. Hann er efnilegur þjálfari, sigurvegari sem hefur unnið allt, goðsögn hjá félaginu og hefur starfað með flestum af bestu þjálfurum heims.

Kjartan Björnsson, rakari
Ég tel ákvörðunina rétta í ljósi sögunnar og þess farsæla tíma sem Arsene hefur verið hjá okkur. Mikill meistari sem ég hef oft hitt og þykir gríðarlega vænt um. Hef haft þá skoðun um nokkurt skeið að ákvörðunin um starfslokin þurfi að vera sameiginleg svo virðing verði yfir starfslokunum í samræmi við það sem hann á skilið. Það eru ákveðin vatnaskil í hugmyndafræðinni sem hann kom með en undan henni hefur fjarað síðustu ár. Það á núna að reysa af honum styttu og njóta nærveru hans út hans lífstíð á Emirates okkur hinum til áminningar um hans frábæra starf, ég mun sakna hans en um leið horfa bjartsýnn til nýs arftaka. Skarðið er vandfyllt en ég geri mér enga grein fyrir hver á að taka við.
Athugasemdir
banner
banner
banner