lau 21. apríl 2018 14:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Telegraph: Wenger er ekki hættur og gæti tekið við Everton
Mynd: Getty Images
Eins og allir vita tilkynnti Arsene Wenger í gær að hann myndi hætta með Arsenal eftir tímabilið. Nokkrir fjölmiðlar greina frá því að Wenger sé hins vegar ekki að hætta í fótbolta. Telegraph fer þar fremst í flokki.

Hinn 68 ára gamli Wenger hefur verið orðaður við Paris Saint-Germain í gegnum tíðina en hann mun líklega ekki fá það starf þar sem það er ætlað Thomas Tuchel.

Samkvæmt heimildum Telegraph í Frakklandi er Mónakó hins vegar möguleiki fyrir Wenger.

Leonardo Jardim, núverandi stjóri Mónakó, hefur verið orðaður við önnur félög þar á meðal Arsenal og svo gæti farið að Jardim taki við Arsenal og Wenger taki við Mónakó.

Wenger þekkir vel til hjá Mónakó eftir að hafa stýrt liðinu frá 1987 til 1994 en það hefur margt breyst síðan þá.

Ef Wenger vill vera áfram í ensku úrvalsdeildinni þá er Everton líklegasti kosturinn. Sam Allardyce er sagður valtur í sessi og hann gæti misst starf sitt eftir tímabilið.

Farhad Moshiri, stærsti hluthafinn Everton, átti áður hlut í Arsenal og er aðdáandi Wenger.

Það yrði ansi spennandi að sjá Wenger hjá Everton þar sem Gylfi Þór Sigurðsson er á meðal leikmanna.

Telegraph heldur því líka fram að Wenger gæti tekið upp starf sem yfirmaður knattspyrnumála hjá einhverju félagi eða tekið við landsliði. Eru enska landsliðið og japanska landsliðið nefnd í því samhengi en Wenger þjálfaði í Japan áður en hann tók við Arsenal.

Hvað verður næsta skref Wenger?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner