mán 30. apríl 2018 17:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Framkvæmdastjóri Víkings ósáttur: Nú má segja hvað sem er
Formaður dómstólsins fyrrum stjórnarmaður hjá knattspyrnudeild Vals
Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Haraldur í stúkunni á Víkingsvelli.
Haraldur í stúkunni á Víkingsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjá Víkingi Reykjavík eru menn allt annað en sáttir eftir að KSÍ ákvað að draga til baka sekt sem Valur fékk í mars vegna ummæla sem Ólafur Jóhannesson, þjálfari liðsins, lét falla í hlaðvarpsþættinum Návígi hér á Fótbolta.net.

KSÍ ákvað að sekta Val um 100 þúsund krónur eftir að Ólafur sagði að samið hafi verið um úrslitin í leik Víkings R. og Völsungs í 1. deildinni árið 2013. Víkingar unnu 16-0 og þessi stórsigur gerði það að verkum að liðið komst upp úr deild með betri markatölu en Haukar. Ólafur var þá þjálfari Haukaliðsins.

Víkingur kvartaði til KSÍ vegna ummælanna og sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem félagið skoraði á Ólaf að biðjast afsökunar á ummælunum.

Eftir það ákvað KSÍ að sekta Val en nú hefur sektin verið dregin til baka eftir áfrýjun Vals.

„Ólafur D. Jóhannesson lét ummælin sannanlega falla opinberlega, sem getur verið refsivert, sé öðrum refsiskilyrðum laga og reglugerða KSÍ fullnægt, sbr. dómi Áfrýjunardómstóls KSÍ í máli nr. 2/2016," segir í niðurstöðu áfrýjunardómstóls KSÍ.

„Ummæli Ólafs D. Jóhannessonar vörðuðu hins vegar á engan hátt störf hans í þágu knattspyrnudeild Vals, og því er engin heimild samkvæmt lögum og reglum KSÍ til að gera knattspyrnudeild Vals refsingu vegna þeirra. Ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi."

„Sögulegur dómur"
Fótbolti.net heyrði orðið í Haraldi Haraldssyni, framkvæmdastjóra Víkings, eftir þessar fréttir. Hann er ekki par sáttur með niðurstöðuna.

„Þetta er náttúrulega, burtséð frá því hverjir eiga hlut í máli, sögulegur dómur að því leyti að aganefnd KSÍ er búið að dæma í gegnum tíðina sektir á forráðamenn félaga og slíkt. Samkvæmt þessum úrskurði hafa þeir ekki haft neina heimild til þess. Nú má segja hvað sem er," segir Haraldur.

„Forráðamenn félaga mega segja hvað sem er, hvenær sem er. KSÍ hefur bara heimild til þess að sekta aðildarfélögin, þeir geta ekki sektað einstaklinga. Óli er þjálfari Vals og stafsmaður Vals. Það sama á að gilda um stjórnarmenn og aðra."

„Það sem er líka mjög merkilegt í þessu máli, er að Sigurður G. Guðjónsson, sem er formaður dómstólsins, hann er Valsari. Hann hefur setið í stjórn Vals," segir Haraldur en hann vill koma því á framfæri að Sigurður er fyrrverandi stjórnarmaður hjá knattspyrnudeild Vals.

„Ég er mjög hissa á dómnum. Ég er náttúrulega ekki síst hissa vegna þess að hann hefur svo mikil áhrif. Nú er knattspyrnuhreyfingin í raun og veru varnarlaus gagnvart orðum sem kunna að falla, og að háttvirtur lögmaður Sigurður G. Guðjónsson hafi ekki ákveðið að víkja."

Aðspurður segist Haraldur ekki viss um hvað tekur við núna. „Við getum ekki gert meira í þessu máli sem slíku. Nema hugsanlega að fara í meiðyrðarmál beint við Óla Jó. Það er ekkert svoleiðis samt í umræðunni."

„Ég spyr mig, ætlar KSÍ að endurgreiða þeim félögum sem hafa greitt sektir vegna forráðamanna eða annarra sem hafa látið eitthvað út úr sér?" sagði Haraldur að lokum.

Sjá einnig:
Óli Jó: Samið um úrslit hjá Víkingi R. og Völsungi
Hrannar Björn: Kjaftæði að við höfum verið með veðmálasvindl
Víkingur kvartar til KSÍ vegna ummæla Óla Jó
Yfirlýsing frá Víkingi: Skora á Óla Jó að biðjast afsökunar

Smelltu hér til að hlusta á Óla Jó í Návígi
Athugasemdir
banner
banner
banner