
Lars Lagerback reiknar ekki með að fara á HM í Rússland í sumar sem áhorfandi. Lars þjálfar í dag norska landsliðið en hann hefur áður stýrt sænska og nígeríska landsliðinu á HM.
„Ég reikna ekki með að fara," sagði Lars á fréttmannafundi á Laugardalsvelli í dag.
„Ég hef farið á allar lokakeppnir síðan 1990 fyrir utan eina. Þú nærð ekki að sjá svo marga leiki þá. Ég hugsa að ég reyni að ná að horfa á sem flesta leiki í sjónvarpinu."
Ísland, Svíþjóð og Danmörk eru öll á leiðinni á HM á meðan Normenn, sem Lars þjálfar, sitja eftir heima. Lars var beðinn um að meta möguleika Norðurlandaþjóðanna á HM.
„Það er hægt að skoða heimslista FIFA og úrslit liða. Ef þú skoðar leikmennina þá myndi ég setja Dani efsta. Danir hafa nokkra virkilega góða leikmenn. Svíþjóð og Ísland koma þar á eftir. Svíþjóð og Ísland hafa svipuð gæði," sagði Lars.
Lars stýrir norska landsliðinu gegn því íslenska á Laugardalsvelli á laugardagskvöld.
Athugasemdir