Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 04. júní 2018 10:15
Mist Rúnarsdóttir
Best í 5. umferð: Kom á óvart hversu litla trú spekingarnir höfðu á liðinu
Björk Björnsdóttir (HK/Víkingur)
Björk Björnsdóttir er besti leikmaður 5. umferðar
Björk Björnsdóttir er besti leikmaður 5. umferðar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég myndi alltaf skipta á einni vörslu og stigi eða stigum“
„Ég myndi alltaf skipta á einni vörslu og stigi eða stigum“
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
„Það kom mér reyndar líka á óvart hversu litla trú spekingar höfðu á okkar liði en það er okkar að afsanna þeirra spár og vonandi náum við að koma á óvart.“
„Það kom mér reyndar líka á óvart hversu litla trú spekingar höfðu á okkar liði en það er okkar að afsanna þeirra spár og vonandi náum við að koma á óvart.“
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Björk Björnsdóttir átti stórleik í markinu hjá nýliðum HK/Víkings er liðið tapaði með einu marki gegn Stjörnunni síðastliðinn þriðjudag. Björk gat lítið gert í markinu sem Birna Jóhannsdóttir skoraði fyrir Stjörnuna og kom í veg fyrir stærra tap HK/Víkinga með magnaðri frammistöðu. Hún hefur því verið valin besti leikmaður 5. umferðar Pepsi-deildar kvenna hér á Fótbolta.net.

„Ég er óánægð með hvernig við byrjuðum leikinn og á móti sterku liði eins og Stjörninni þýðir slök byrjun yfirleitt tap. Við áttum síðan góða kafla inn á milli en vissulega lá of mikið á okkur. Það var erfitt að byggja upp sóknarleikinn þegar við vorum fallnar djúpt með flesta leikmenn,” sagði Björk aðspurð um leikinn. Um frammistöðu sína bætti Björk við:

„Ég hafði nóg að gera eins og allt liðið varnarlega. Ég held að ég sjálf hafi komist vel frá þessum leik, en við erum ellefu inná sem erum að berjast saman og það helst allt í hendur. Ég myndi alltaf skipta á einni vörslu og stigi eða stigum.“

HK/Víkingur er í 9. sæti með 3 stig eftir fyrstu fimm umferðir en eftir sigur á FH í fyrstu umferð hafa fylgt fjögur töp gegn fjórum efstu liðum deildarinnar.

„Eftir frammistöðu liðsins á móti Þór/KA og Val er maður svekktur að vera ekki með fleiri stig en það hefur verið margt gott í okkar leik sem við getum byggt ofan á. Það er fullt af leikjum og stigum eftir og við ætlum okkur að sækja stig í hverjum leik. Ég hef fulla trú okkur.“

„Við viljum vera í efstu deild og þar eigum við heima og markmiðið getur ekki verið annað en reyna að ná topp frammistöðu í hverjum leik og sjá hvað það gefur. Við ætlum að berjast fyrir sæti í Pepsi alla leið.“


En hefur eitthvað komið Björk á óvart í upphafi móts?

„Það er ekki margt en munurinn á efstu og neðstu liðunum er minni en ég bjóst við og það þarf lítið að gerast til þess að leikir endi á óvæntan hátt. Það kom mér reyndar líka á óvart hversu litla trú spekingar höfðu á okkar liði en það er okkar að afsanna þeirra spár og vonandi náum við að koma á óvart.“

Framundan er pása frá deildarleikjum vegna landsliðsliðsverkefna en 6. umferð verður ekki spiluð fyrr en 19. og 20. júní. Við spurðum Björk hvernig pásan leggðist í hana og hvernig HK/Víkingar hyggðust nýta fríið.

„Pásan getur bæði haft góð og slæm áhrif og það er undir okkur komið að horfa jákvæðum augum á hana og nýta hana á réttan hátt. Hún er auðvitað kærkomin til að safna orku, koma líkamanum í gott stand og gera eitthvað skemmtilegt utan vallarins en við þurfum að halda einbeitingu fyrir næstu verkefni. Við þurfum að mæta í þau með allt okkar og með hausinn rétt skrúfaðan á því næstu leikir eru ekkert léttari en þeir sem eru búnir, þvert á móti. Það eru allir að berjast fyrir sömu stigunum. Þjálfarar hafa örugglega mótaðar hugmyndir um hvað þeir ætla okkur að gera í pásunni og við leikmennirnir reynum örugglega að leika okkur eitthvað saman.“

Leikmaður umferðarinnar fær ljúffenga Dominos pizzu í verðlaun í boði Dominos og við spurðum markvörðinn öfluga að lokum hvernig pizzu hún ætlaði að fá sér og hvort hún myndi bjóða einhverjum með sér. Það stóð ekki á svörunum en forsetinn gæti átt von á símtali.

„Ég ætla að fá mér Bahamas og bjóða Guðna Th. til að reyna að sannfæra hann um að ananas er geggjaður á pizzu en það gæti verið að Laufey systir fái boð í afganga.“

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi-deild karla og kvenna fá Pizzu veislur frá Domino's í sumar.

Fyrri leikmenn umferðar
Leikmaður 4. umferðar – Rio Hardy (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Jasmín Erla Ingadóttir (FH)
Leikmaður 2. umferðar - Selma Sól Magnúsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 1. umferðar - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner