Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 12. júní 2018 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í Inkasso: Þurftu að núllstilla sig og byrja að hafa gaman
Leikmaður 6. umferðar - Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.)
Sólon er kominn með fimm mörk í sex leikjum.
Sólon er kominn með fimm mörk í sex leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sólon var kominn í Vestra en skipti skyndilega yfir í Leikni.
Sólon var kominn í Vestra en skipti skyndilega yfir í Leikni.
Mynd: Leiknir.com
„Auðvitað getur maður alltaf gert betur en þetta er fínt," segir Sólon Breki Leifsson, sóknarmaður Leiknis R., besti leikmaður 6. umferðar í Inkasso-deildinni.

Sólon skoraði tvennu og átti lykilsendingu í þriðja markinu þegar Leiknir lagði Magna að velli botnbaráttuslag. Sólon er kominn með fimm mörk í sex leikjum í Inkasso-deildinni það sem af er sumari.

„Þetta var fínn leikur að okkar hálfu. Við áttum allan fyrri hálfleikinn en slökuðum svo aðeins á í seinni hálfleiknum. Við fórum þó út úr leiknum með þrjá punkta sem er fyrir öllu."

„Leikurinn var settur upp alla vikuna hjá okkur sem sex stiga leikur, virkilega mikilvæg stig og gott fyrir sjálfstraustið að taka annan heimasigurinn í röð."

Það varð þjálfarabreyting hjá Leiknismönnum eftir aðeins þrjá leiki í Inkasso-deildinni. Kristófer Sigurgeirsson var látinn fara og Vigfús Arnar Jósepsson hefur stýrt liðinu síðan þá.

„Auðvitað er alltaf leiðinlegt að missa góða menn, en svona er þetta," segir Sólon. „Ég get ekkert sagt til um hvort þetta hafi verið of snemma eða ekki, ég og Kristó erum góðir vinir og ég á honum mikið að þakka. Fúsi er buinn að vera flottur. Hann nær vel til strákanna og það er gaman að spila fyrir hann. Ég held að það hafi sést á vellinum í síðustu leikjum, það er ekki mikil pressa á okkur, þannig við fáum að njóta aðeins meira."

Ekki mikil pressa, hvernig þá? Spyr undirritaður. „Við höfum ekki verið sigurstranlegri aðilinn (e. underdogs) í siðustu leikjum eftir að hafa tapað fyrstu þremur, menn þurftu bara að núllstilla og byrja að hafa smá gaman af hlutunum."

Aðspurður um markmið sín í sumar segir Sólon: „Alltaf stefnan á markatitilinn ef þú ert að tala um persónulega, en annars ætla ég að gera mitt besta til að hjálpa liðinu upp töfluna."

Ætlaði að spila með Vestra
Það vakti athygli í febrúar þegar Sólon samdi við Leikni því nokkrum mánuðum áður hafði hann gengið í raðir Vestra. Hann ætlar sér að spila með Vestra í 2. deild í sumar en það breyttist snögglega.

„Ef ég á að segja alveg eins og er, þá bara veit ég það ekki alveg (innskot blaðamanns - hvað gerðist), ég æfði allan veturinn með Bjarna (Jóhannssyni) og nokkrum strákum í Vestra sem voru í bænum og svo hafði Leiknir samband við Samúel framkvæmdastjóra Vestra og það var tekin sameiginleg ákvörðun um að ég myndi fara til Leiknis," segir Sólon, sem er fæddur 1998 og uppalinn í Breiðabliki.

„Á endanum var það ég sem tók endanlega ákvörðun."

Það virðist hafa verið góð ákvörðun fyrir hann að spila í Inkasso-deildinni en hann var tilbúinn að flytja vestur í sumar. „Það var planið þangað til Leiknir hafði samband við Vestra."

Leiknismenn hafa unnið tvo af síðustu þremur eftir að hafa tapað fyrstu þremur í deildinni. Er bjartsýni fyrir framhaldinu í Breiðholtinu?

„Já, klárlega. Það er komin trú í liðið og sjálfstraust. Einmitt það sem okkur vantaði eftir fyrstu þrjá leikina. Við höldum áfram, næsti leikur er á morgun í Ólafsvík og við förum þangað og ætlum að sækja þrjú stig," sagði Sólon að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar
5. umferð - Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfoss)
4. umferð - Alvaro Montejo Calleja (Þór)
3. umferð - Steinar Þorsteinsson (ÍA)
2. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)



Sjöunda umferð Inkasso-deildarinnar er leikin í dag og á morgun.

Í dag:
19:15 ÍR-Njarðvík (Hertz völlurinn)
19:15 Fram-Haukar (Laugardalsvöllur)
19:15 Selfoss-Þróttur R. (JÁVERK-völlurinn)

Á morgun:
19:15 HK-ÍA (Kórinn)
19:15 Víkingur Ó.-Leiknir R. (Ólafsvíkurvöllur)
19:15 Magni-Þór (Grenivíkurvöllur)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner