fim 14. júní 2018 08:24
Elvar Geir Magnússon
Öryggisstjórinn með kíki - Spilunum haldið þétt að sér
Icelandair
Víðir Reynisson skoðar hvort fólk sé að fylgjast með háleynilegri æfingu Íslands.
Víðir Reynisson skoðar hvort fólk sé að fylgjast með háleynilegri æfingu Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í þessum skrifuðu orðum er íslenska landsliðið á sinni síðustu æfingu í Gelendzhik fyrir leikinn gegn Argentínu. Strákarnir okkar fljúga yfir til Moskvu síðar í dag og æfa á keppnisvellinum á morgun.

Það er óhætt að segja að spilunum sé þétt haldið að sér á þessari æfingu.

Eins og við greindum frá á þriðjudaginn hafa íbúar við æfingavöllinn verið að fylgjast með með æfingum íslenska liðsins þrátt fyrir að hafa verið bannað það af yfirvöldum.

Víðir Reynisson, öryggisstjóri KSÍ, mætti með kíki á æfinguna í dag og skoðaði gaumgæfilega hvaða íbúar væru að horfa á Ísland æfa taktík fyrir Argentínuleikinn.

Venjan er að fjölmiðlamenn og ljósmyndarar fái að fylgjast með fyrstu fimmtán mínútunum á æfingum en að þessu sinni var æfingunni lokað eftir örfáar mínútur.

Freyr Alexandersson er á æfingunni en hann fékk það hlutverk að taka út argentínska liðið í leikgreiningu. Fjölmiðlar báðu um að fá Frey í viðtal í dag en það var ekki í boði.

Spennan eykst með hverri mínútu og teymi íslenska liðsins passar vel upp á að ekkert leki út.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner