Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 20. júní 2018 17:02
Brynjar Ingi Erluson
Viðtal
Hörður Björgvin um skiptin til CSKA Moskvu: Þetta er rússneski draumurinn
,,Heillar alla knattspyrnumenn að spila í Meistaradeild Evrópu
Hörður Björgvin Magnússon er genginn í raðir CSKA Moskvu
Hörður Björgvin Magnússon er genginn í raðir CSKA Moskvu
Mynd: Getty Images
Hörður og Marcus Rashford í baráttunni í desember
Hörður og Marcus Rashford í baráttunni í desember
Mynd: Getty Images
CSKA Moskva kynnti Hörð í dag
CSKA Moskva kynnti Hörð í dag
Mynd: Heimasíða CSKA Moskvu
Rússneska stórliðið CSKA Moskva staðfesti í dag kaupin á Herði Björgvini Magnússyni frá enska félaginu Bristol City en hann gerði fjögurra ára samning við rússneska liðið. Hann mun formlega ganga í raðir félagsins eftir heimsmeistaramótið en hann kveðst spenntur fyrir þessu ævintýri.

Hörður, sem er 25 ára gamall, er uppalinn í Fram en gekk ungur að aldri til Juventus á láni. Hann var síðar keyptur til „gömlu konunnar" í Tórínó-borg. Á tíma sínum hjá Juventus fór hann þrisvar á lán, fyrsta skiptið til AC Spezia og í hin tvö skiptin til Cesena.

Sumarið 2016 samdi hann við Bristol City og spilaði á tveimur tímabilum þar 61 leik og skoraði 1 mark.

Eins og Fótbolti.net greindi frá þann 1. júní síðastliðinn þá gerði leikmaðurinn munnlegt samkomulag við rússneska stórliðið CSKA Moskvu og skrifaði svo í kjölfarið undir fjögurra ára samning en bæði Bristol City og CSKA staðfestu félagaskiptin í dag og gengur hann formlega til liðs við CSKA um mánaðarmótin.

CSKA Moskva er stærsta félagið í Rússlandi og hefur verið tíður þátttakandi í Meistaradeild Evrópu. Hörður er spenntur fyrir rússneska ævintýrinu en hann hefur fengið smjörþefinn af Moskvu og Rússlandi síðustu daga en hann er þar með íslenska landsliðinu sem leikur í D-riðli heimsmeistaramótsins.

„Þetta er rússneski draumurinn. CSKA Moskva er risastórt félag í Evrópu og stærsta félagið í Rússlandi, þannig ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um. Félagið á ríka sögu, umgjörðin frábær og ekki yfir neinu að kvarta þarna," sagði Hörður Björgvin við Fótbolta.net.

„Þetta gerðist allt saman mjög hratt og get ég ekki beðið eftir því að taka þetta næsta skref á ferlinum. Moskva er mjög falleg og Rússland er viðkunnanlegt land."

Margir öflugir leikmenn eru á snærum CSKA Moskvu en þar leika menn á borð Igor Akinfeev, Mario Fernandes, Aleksandr Golovin og Alan Dzagoev, svo einhverjir séu nefndir en allir eru þeir byrjunarliðsmenn í rússneska landsliðinu sem hefur unnið báða leiki sína á HM til þessa.

„Maður þekkir mörg nöfn í þessu liði. Igor Akinfeev er náttúrlega goðsögn hjá félaginu auk þess sem Golovin hefur verið frábær á HM og gert góða hluti fyrir CSKA. Þetta er spennandi ævintýri og mér er auðvitað ljóst að liðið ætlar sér að endurheimta titilinn, það er auðvitað markmiðið."

„Liðið er áskrifandi í Meistaradeild Evrópu og það heillar alla knattspyrnumenn að spila þar. Þetta er enn að síast í gegnum hausinn á mér að hafa skrifað undir hjá svona stóru félagi og mikil tilhlökkun að flytja til Rússlands,"
sagði hann ennfremur.

Hann var ánægður með tíma sinn hjá Bristol City og er þakklátur fyrir tækifærið að hafa spilað fyrir enska B-deildarfélagið.

„Tími minn hjá Bristol City var frábær. Maður lærði ýmislegt á Englandi, þar var mikil harka og engin vettlingatök. Lee Johnson hjálpaði mér að bæta leik minn og liðsfélagar mínir þar og margar góðar minningar, þá sérstaklega þegar við unnum Manchester United í Carabao-bikarnum. Stuðningsmennirnir voru frábærir og vil ég þakka félaginu, liðsfélögum mínum og öllum sem komu að félaginu fyrir allt."

Einbeiting Harðar er nú á HM en liðið mætir Nígeríu á föstudag í öðrum leik Íslands á mótinu. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Argentínu í fyrsta leik og ljóst er að leikurinn gegn Nígeríu verður enn einn úrslitaleikurinn.

„Einbeitingin er öll á Nígeríu. Það er gott skiptin eru farin í gegn og þetta sé klappað og klárt. Nígería er með gríðarlega sterkt lið og við förum í þennan leik eins og alla aðra leiki, til að ná góðum úrslitum," sagði hann í lokin.

Sjá einnig:
Hörður Björgvin til CSKA (Staðfest)
Hörður Björgvin á leið til CSKA Moskvu


Athugasemdir
banner
banner