fös 22. júní 2018 18:16
Gunnar Logi Gylfason
Birkir Már: Förum í síðasta leikinn til að vinna
Icelandair
Birkir Már Sævarsson í leiknum í dag.
Birkir Már Sævarsson í leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Já, við erum ótrúlega svekktir," sagði Birkir Már Sævarsson eftir leik Íslands og Nígeríu. Leikurinn fór 2-0 fyrir Nígeríu.

„Þessi leikur spilaðist eins og við vildum. Við sköpuðum nokkra hálfsénsa og höfðum tök á þessu. Þeir fá í rauninni mark þarna 1-0 og þá þurfum við að fara aðeins framar á völlinn og reyna að ná í mark sjálfir."

„Svo eru þeir bara fljótir þarna frammi og ná að refsa okkur í góðum skyndisóknum,"
sagði Birkir Már en fyrra mark Nígeríumanna skoraði Ahmed Musa eftir skyndisókn eftir langt innkast Íslendinga.

„Þetta var vel útfærð skyndisókn í fyrra markinu, góð snerting og skot. Seinna markið, fljótur senter og gerir vel. Ég á eftir að sjá þetta aftur en eins og ég man þetta þá er hann náttúrulega fljótur hann Musa," segir Birkir Már spurður út í mörk Nígeríumanna.

Ahmed Musa skoraði einnig seinna mark Nígeríumanna þar sem hann nýtti hraðann til þess að komast fram úr vörn Íslendinga.

Gífurlega mikill hiti var í Volgograd á meðan leik stóð og var Birkir Már spurður út í hann.

„Nei mér fannst ekkert vera svakalega heitt. Það fór náttúrulega mikil orka í Argentínuleikinn og kannski vorum við orðnir þreyttir. Ég veit ekki hvort það sé skýringin."

Aðspurður hvort Nígeríumenn hefðu komið Íslandi á óvart svaraði BIrkir: „Nei við vorum búnir að fara yfir þá og vissum að þeir gætu komið með þessa taktík sem þeir voru í og vorum alveg undirbúnir undir það og eins og ég segi þá fannst mér fyrri hálfleikur vera góður."

Ísland á þó ennþá möguleika á að komast upp úr riðlinum með sigri gegn Króatíu og hagstæðum úrslitum í leik Argentínu og Nígeríu.

„Það er bara farið í síðasta leikinn til að vinna hann, það er ekkert annað sem við getum gert. Svo verðum við bara að vona að hitt fari á okkar veg," sagði Birkir Már að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner