Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 22. júní 2018 18:59
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aron Einar: Þurfum að vera klókari
Icelandair
Aron Einar í leiknum í dag.
Aron Einar í leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Svekkelsi. Leiðinleg úrslit, en núna er þetta ekki lengur í okkar höndum. Nú er það áfram gakk," sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, eftir 2-0 tap gegn Nígeríu á Heimsmeistaramótinu Í Rússlandi í dag.

Fyrra mark Nígeríu kom eftir langt innkast hjá Íslandi. Nígería komst í skyndisókn og skoraði.

„Það var slæmt að fá á okkur mark úr okkar eigin fasta leikatriði. Mér fannst við vera með þá og okkur leið vel inn á vellinum. Leiðinleg úrslit. Spilamennskan í seinni hálfleik var ekki beint geðveikt en við höldum áfram. Núna verðum við að taka Króatíu í síðasta leiknum og vonast eftir hagstæðum úrslitum í hinum leiknum."

Aðspurður um leikplan Íslands í leiknum segir Aron:

„Við ætluðum að keyra upp vængina þar sem helstu færi okkar komu þegar við vorum að skipta á köntunum og fengum bakverðina okkar í leik. Við gerðum ekki nóg af því. Eins og ég segi, þá fá þeir mark eftir okkar fasta leikatriði sem er ekki líkt okkur og það er ódýrt að fá á okkur þannig mark. Þá erum við komnir á afturhælana en við reynum samt áfram og það er ekki hægt að segja að við höfum ekki lagt allt í sölurnar. Ég sá það strax eftir leik inn í klefa, þegar ég tók í spaðann á mönnum að menn voru gjörsamlega búnir. Við gáfum allt í þetta eins og við erum vanir," sagði Aron.

Breytt taktík
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, ákvað að breyta úr 4-5-1 í 4-4-2 fyrir leikinn í dag. Heimir er ekki á því að taktíkin hafi verið röng en hvað segir Aron Einar?

„Það er hægt að rýna í allt. Við höfum spilað frábæra leiki í 4-4-2 og frábæra leiki í 4-5-1 eða hvað sem þetta er kallað. ég held að það hafi ekki gert útslagið. Við fengum á okkur mark eftir okkar eigin fasta leikatriði. Við þurfum að vera klókari, að taka menn niður þegar þess þarf og taka á sig gult spjald. Það var svekkjandi, það var ekkert með það hvort við værum í 4-4-2 eða 4-5-1."

„Þeir voru fyrri til í þessum leik og voru að vinna alltof marga seinni bolta fannst mér. Það var kannski líka svekkelsið í þessum leik."

„Við vissum að þeir myndu koma inn í seinni hálfleikinn af krafti. Þeir þurftu að sækja af krafti og þeir þurftu sigur. Þeir fá ódýrt mark sem kveikir vel í þeim. Síðan er seinna markið aftur klaufaskapur að okkar hálfu. (Ahmed) Musa er skuggalega fljótur og það var kannski eðlilegt að hann myndi vinna keppnina um boltann í því marki. Núna er það Króatía, við dveljum ekki of lengi að þessu. Núna er það upp með kassann og rífa þetta aftur í gang."

Ísland spilar við Króatíu á þriðjudaginn, í síðasta leik okkar í riðlakeppninni. Á sama tíma spilar Nígería við Argentínu. Smelltu hér til að skoða möguleikana fyrir lokaumferðina.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner