Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 23. júní 2018 23:00
Elvar Geir Magnússon
Helgi Kolviðs: Leikur sem við fórnum okkur gjörsamlega í
Icelandair
Helgi á æfingu Íslands.
Helgi á æfingu Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland verður að vinna Króatíu í síðasta leik sínum í riðlakeppni HM í Rússlandi til að eiga möguleika á að fara áfram. Leikurinn verður á þriðjudag í Rostov-on-Don.

„Hefðum við vitað það fyrirfram að við gætum átt möguleika fyrir síðasta leik í riðlinum að komast áfram þá hefðum við allir skrifað undir það. Staðan er þannig að við eigum séns. Bakið er upp við vegg og þetta er leikur sem við ætlum að fórna okkur gjörsamlega í," segir Helgi Kolviðsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Ísland tapaði fyrir Nígeríu í gær og var Helgi spurður að því hvernig andinn væri í leikmannahópnum.

„Menn hugsa út í hlutina eftir svona leik og eru svekktir. Það er aldrei neinn ánægður með að tapa. Við gerum bara kröfu á okkur sjálfa að vilja vinna leikina. Menn gefa sig alla í þetta."

„Ef einhver hélt að við myndum fara á HM og tapa ekki leik þá er það kannski smá draumur."

Ísland fór í 4-4-2 í gær en síðast þegar Ísland vann Króatíu spilaði liðið 4-4-1-1 kerfi. Verður farið aftur til baka?

„Það er alltaf möguleiki. Varðandi leikinn gegn Nígeríu vildum við fá tvo sentera inn upp á hafsenta þeirra að gera. Þeir eru með bakverði sem fara mikið fram og við vissum að þá gæti myndast svæði út á köntunum. Það gat gefið möguleika á fyrirgjöfum og því komum við með tvo sentera. Við sáum í fyrri hálfleik í gær að við vorum að skapa hættu en það vantaði kannski síðasta skrefið. Þetta er ástæðan fyrir því að við fórum í 4-4-2 gegn Nígeríu," segir Helgi en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að neðan.
Helgi Kolviðs: Þetta er bara bull - Nenni ekki að ræða svona hluti
Athugasemdir
banner
banner
banner