mán 09. júlí 2018 17:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í Inkasso: Foreldrarnir búnir að kaupa samsetta treyju
Leikmaður 10. umferðar - Arnór Snær Guðmundsson (ÍA)
Arnór Snær fagnar öðru marki sínu í leiknum.
Arnór Snær fagnar öðru marki sínu í leiknum.
Mynd: Ingunn Hallgrímsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við höfum oft átt betri daga en á móti Selfossi. Byrjuðum illa fyrstu 20 mínúturnar en eftir það var þetta aldrei spurning," segir Arnór Snær Guðmundsson varnarmaður ÍA en hann er leikmaður tíundu umferðar í Inkasso-deildinni.

Arnór skoraði bæði mörk ÍA og átti góðan dag í vörninni í 2-0 sigri á Selfyssingum á fimmtudaginn.

„Persónulega hef ég spilað betur en þetta í sumar en átti fínan leik eftir dapra byrjun. Þess vegna kemur þessi nafnbót örlítið á óvart en það eina sem virðist duga til að varnarmenn fái athygli er að skora. Hinsvegar tökum við 3 stig sem var mjög mikilvægt eftir tap í umferðinni á undan."

Arnór spilaði í stöðu hægri bakvarðar í leiknum eftir að hafa verið miðvörður undanfarin ár.

„Ég verð seint sakaður um að vera mikill bakvörður og var alls enginn rennilás í þessum leik en Jói Kalli vildi prufa þetta og það virkaði að einhverju leyti. Veit ekki hvort þetta sé eitthvað sem koma skal eða til frambúðar en ég spila bara þar sem ég er beðinn um að spila og geri mitt besta."

Arnór hafði ekki skorað deildarmark með ÍA áður en kom að leiknum á fimmtudag en hann er á sínu fimmta tímabili á Akranesi.

„Ég hef eðlilega fengið mikið af spurningum frá fólkinu í kringum mig og kringum skagaliðið enda hafði ég skorað eitt mark í keppnisleik fyrir ÍA síðan ég kom haustið 2013. En mér tókst að þrefalda markafjöldann í þessum eina leik. Eigum við ekki að segja að fyrirgjafirnar úr föstu leikatriðunum hafi loksins skilað sér yfir fyrsta mann og inn á teig. Þá er þetta aldrei spurning," sagði Arnór brosandi.

Skagamenn eru eftir sigurinn á fimmtudaginn á toppnum í Inkasso-deildinni.

„Þetta verður hörkutoppbarátta og líklegt að niðurstaðan ráðist í lokaumferðunum. Eins og er eru fjögur lið aðeins á undan pakkanum en það gætu fleiri lið sett pressu á þennan pakka og gert tilkall til að vera í honum með því að ná í nokkur hagstæð úrslit. Ég held að deildin sé sterkari en margir vilja meina og mikið um hörkuleikmenn. Það eru allaveganna engir auðveldir leikir og það þarf að fara 100% inn í alla leiki ef maður vill taka öll 3 stigin."

Næsti leikur ÍA er gegn Þrótti í Laugardalnum á föstudagskvöld. Þar mætir Arnór bróður sínum Birki en hann er í liði Þróttar.

„Virkilega skemmtilegur leikur á föstudaginn. Við náðum að spila hálfleik saman fyrir 2.flokk Aftureldingar áður en við fórum í önnur lið en ég ef aldrei mætt honum áður svo þetta verður gaman. Ég veit að foreldrarnir eru búnir að kaupa samsetta ÍA og Þróttara treyju til að vera í og ég geri ráð fyrir að þau vonist eftir jafntefli. En fókusinn verður ekki mikill á bróður mínum í kringum þennan leik. Þetta verður hörkuleikur og mikið fjör enda tvö sterk lið sem ætla sér hluti og því verður lítið gefið eftir," sagði Arnór að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar
9. umferð - Emir Dokara (Víkingur Ó.)
8. umferð - Viktor Jónsson (Þróttur R.)
7. umferð - Tiago Fernandes (Fram)
6. umferð - Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.)
5. umferð - Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfoss)
4. umferð - Alvaro Montejo Calleja (Þór)
3. umferð - Steinar Þorsteinsson (ÍA)
2. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner