Real hættir við Guehi - Liverpool horfir til Wolfsburg - Barca getur ekki borgað uppsett verð - Mainoo til Napoli
banner
   fös 07. október 2005 06:06
Hafliði Breiðfjörð
Banamaður Escobar að sleppa úr fangelsi
Dómstóll í Kólumbíu úrskurðaði í dag um að maðurinn sem myrti kólumbíska landsliðsmanninn Andres Escobar fyrir að skora sjálfsmark á HM 1994 myndi sleppa strax úr fangelsi fyrir ódæðið miklu fyrr en áætlað hafði verið.

Escobar skoraði sjálfsmark í leik Kólumbíu gegn Bandaríkjamönnum á HM 1994 og eftir að hann kom til heimalandsins var hann myrtur 2. júlí 1994 á bílastæði fyrir utan næturklúbb en þetta var nokkrum dögum eftir að hann skoraði sjálfsmarkið sem varð til þess að Bandaríkjamenn unnu leikinn 2-1 og Kólumbíumenn féllu úr keppni.

Maðurinn sem myrti hann, Humberto Munoz, var dæmdur til 43 ára fangelsisvistar á þeim tíma en í gær, ellefu árum síðar samþykkti dómstóll að sleppa honum vegna góðar hegðunar og fyrir að mennta sig vel í fangelsinu. Nöfn dómaranna sem kváðu upp dóminn voru ekki gefin út af öryggisástæðum.

,,Í sannleika sagt er ekkert réttlæti í Kólumbíu," sagði Dario Escobar faðir leikmannsins við útvarpsstöð í landinu í gær.

,,Fyrir mér er réttarkerfið í Kólumbíu blekking. Það hefur blekkt landið, og fjölskyldu okkar með því að segja að hann [Munoz] yrði settur bakvið lás og slá í 43 ár, og nú er morðingin laus."

Þúsundir manna voru viðstaddir útför Escobar og þeirra á meðal var Cesar Gaviria forseti landsins sem sagði leikmanninn hafa verið fórnarlamb fáránlegs ofbeldis sem kæmi ljótu orðspori á landið.

Kólumbískir knattspyrnumenn hafa síðan þá verið undir ógn og undanfarin þrjú ár hafa tveir fyrrum atvinnumenn verið myrtir.

Á myndinni að neðan má sjá fána áhorfendur á leik Hollands og Írlands á HM 4. júlí 1994 settu upp en textann á honum má þýða sem svo: ,,Andreas Escobar. Kólumbía mun aldrei gleyma þér. Stöðvum morð hugleysingja."


Athugasemdir
banner
banner